Stefán Jóhann Stefánsson

                                                                                                                                                                       
Forsíða
Greinar
Ræður
Trúnaðarstörf
Málefni
Menntun og störf
Áhugavert efni
 
Um Stefán Jóhann

Senda póst

 
Stuðningur
Prófkjörsreglur
 
Eldri forsíðupistlar

Um Stefán Jóhann Stefánsson
Varaborgarfulltrúi,
fulltrúi í íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur, innkauparáði og hverfisráði Breiðholts, varafulltrúi í umhverfisráði, framkvæmdaráði og stjórnum Faxaflóahafna,
hagfræðingur og stjórnmálafræðingur,
starfsmaður Seðlabanka Íslands,
stundakennari við Háskóla Íslands.

Kvæntur og þriggja barna faðir
Býr í Seljahverfi í Breiðholti, en hefur búið í Miðbæ, Vesturbæ, Fossvogi og Bökkum.
Fæddur á Ísafirði og bjó um tíma í Svíþjóð.

Fyrsti formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík
Var formaður Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur

 

Spurt og svarað

 

 

 

 

 

 


 


 

 

 



 






 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


 

 

 

 



 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnaðarstefnan
(Áherslumál)

Einkunnarorð jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og samhygð (bræðralag) eru enn í fullu gildi þótt útfærsla þeirra í pólitískri baráttu taki mið af samfélagsþróuninni hverju sinni.

Allir eiga að hafa frelsi frá óeðlilegum afskiptum af lífi þeirra, kúgun og hvers kyns áþján. Jafnframt eiga allir að hafa frelsi til athafna, svo lengi sem þær skaða ekki aðra. Öllu frelsi fylgir viss samfélagsábyrgð. Þess vegna hafna ég þeim frjálshyggjuhugmyndum sem ýmsir sjálfstæðismenn hafa haldið á lofti.

Jafnrétti og réttlæti eru lykilatriði. Réttur allra á að vera jafn og allir eiga að hafa sömu tækifæri. Til þess að svo megi verða verðum við að beita jafnaðarstefnunni við pólitískar ákvarðanir um þróun efnahagsmála og samfélagsmála. Veigamesta jafnréttisverkefnið í íslensku samfélagi er að tryggja jafnan rétt kynjanna, jafnframt því sem tryggja þarf jafnan rétt ýmissa hópa, svo sem fatlaðra, samkynhneigðra, útlendinga, barna og aldraðra.

Samhygðin hjálpar okkur til þess að draga úr ýmiss konar misskiptingu í samfélaginu. Við finnum til með meðbræðrum okkar og -systrum og deilum með þeim kjörum og aðstæðum. Mikil misskipting auðs og tekna er óréttlát. Þess vegna ber að beita fjármálum ríkis og sveitarfélaga til þess að jafna kjör fólks. Eitt veigamesta atriðið í þeim efnum er að tryggja lágmarksframfærslu allra og að framfærslueyrir verði sómasamlegur. Ennfremur ber með jöfnunaraðgerðum að koma í veg fyrir of mikla misskiptingu.

Það má líklega flokka mig sem fremur frjálslyndan og opinn í ýmsum efnahagsmálum, (á uppvaxtarárum á Ísafirði var oft lögð áhersla á einstaklingsframtakið sem aflvaka ýmissa verka), en harðan jafnréttissinna þegar kemur að stöðu kynja og ýmissa hópa og að umræðu um jöfnuð í samfélaginu. Samhygðin er mér í blóð borin og mér finnst of mikill ójöfnuður vera til staðar í samfélaginu. Þar skiptir vitanlega mestu að bæta kjör þeirra sem búa við verstu skilyrðin. En óhóflegt ríkidæmi örfárra einstaklinga sem náðst hefur t.d. í gegnum yfirráð yfir þjóðareign, eða samfélagseign, á borð við aflakvóta, hlýtur einnig að vekja upp spurningar um réttlæti.

Við þurfum á öflugu atvinnulífi að halda og hæfu starfsfólki. Menntakerfið þarf að vera öflugt og ná til stærri hóps en það gerir nú. Leggja þarf meiri áherslu á leikskólann sem fyrsta skólastigið, grunnskólinn þarf að eflast og ná betur til þeirra sem rekast þar illa, hvort sem er vegna vanlíðunar eða verkefnaskorts. Síðan þurfum við velferðarkerfi sem ekki aðeins aðstoðar þá sem á því þurfa að halda, heldur styður einnig við uppeldis- og menntakerfið og skilar þannig sínu framlagi til þjóðarbúsins í formi hæfara starfsfólks. Vísir að þessu eru menntunarstyrkir sem velferðarsvið borgarinnar veitir og ýmis námskeið, s.s. Kvennasmiðjan, Karlasmiðjan og fleira af því tagi. Það má einnig líta á stuðning okkar við íþróttastarfsemi og ýmsa tómstunda- og listastarfsemi í borginni sem lið í þessu. Við þurfum að styðja myndarlega við íþróttafélög, tónlistarskóla og ýmsa tómstundastarfsemi í borginni til að veita börnum og unglingum aðstöðu og vettvang til að fá útrás fyrir athafnaþrá sína, jafnframt sem við styrkjum þau til að takast á við verkefni daglegs lífs og þroskast í leik og starfi. Það þarf að gera átak í þessu og nýta nýjar þjónustumiðstöðvar í samstarfi við skóla og fleiri um þetta. Nú þegar má sjá merki um að hinar nýju þjónustumiðstöðvar í hverfunum muni taka þetta föstum tökum.

Áherslumál:

Fjölbreytt og þétt byggð

  • Nýtum borgarlandið á skynsaman hátt. Þróa þarf áfram fjölbreytta byggð í hverfum borgarinnar þar sem hver og einn getur fengið búsetu við hæfi. Þétta þarf byggðina eftir því sem kostur er vegna þess að það er hagkvæmara fyrir borgarbúa og umhverfisvænna. Tryggja þarf þó gott aðgengi að grænum svæðum og útivistarsvæðum, s.s. í Öskjuhlíð, Laugardal, Elliðaárdal, auk minni grænna svæða.

Stutt í þjónustu - styttum leiðir

  • Þróa þarf ný hverfi eftir þörfum og gæta þarf að þeim samfélagslega kostnaði sem nýjum hverfum fylgir, s.s. vegna samgöngumála. Best væri ef í hverfunum væri einnig atvinnustarfsemi og afþreyingarstarfsemi, auk skóla og ýmissar þjónustu, til þess að draga úr þörfinni fyrir dýr og plássfrek samgöngumannvirki.

Greiðar meginleiðir

  • Samgöngur þarf að skipuleggja með þeim hætti að fólk komist ferða sinna til og frá vinnu, skóla, verslana eða annarri þjónustu á tiltölulega skömmum tíma. Meginumferðarleiðir þurfa að vera greiðar, en í íbúðarhverfum þarf að taka sérstakt tillit til gangandi umferðar barna og annarra. Góðar almenningssamgöngur þurfa að vera til staðar og þær eiga að vera raunhæfur valkostur fyrir alla. Auk þess eru þær samfélagslega hagkvæmar og umhverfisvænar.

Öryggi barna og gangandi vegfarenda

  • Tryggja þarf öryggi gangandi vegfarenda í hverfum borgarinnar og fylgja fram þeirri stefnu sem unnið hefur verið að á undanförnum árum með hraðatakmörkunum. Þannig hefur verið hægt að fækka slysum á börnum og öðrum vegfarendum.

Flugvöllurinn og Vatnsmýrin

  • Meirihluti þeirra sem tók þátt í atkvæðagreiðslu um framtíðarnýtingu flugvallarsvæðisins árið 2001 vildi að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni eftir árið 2016. Aðaskipulag tekur mið af þessari niðurstöðu og gert er ráð fyrir að umfang flugvallarstarfsemi dragist saman í áföngum á skipulagstímabilinu en íbúabyggð og atvinnustarfsemi aukist að sama skapi. Um þetta atriði er þó enn  deilt nokkuð meðal borgarbúa og fólk á landsbyggðinni vill margt halda flugvellinum þar sem hann er, vegna nálægðar við ýmsa þjónustu. Þessi mál þarf að skoða og vinna betur á ýmsan hátt.
         Á það hefur verið bent að mun hagkvæmara gæti verið að nýta landið til þess að þétta byggð en undir flugvöll. Það hlýtur að vega mjög þungt. Þessi mál þarf að sjálfsögðu að skoða einnig með hliðsjón af þróun flugsamgangna og annarra samgangna hér á landi, og með tilliti til þess sem er að gerast með herstöðina á Keflavíkurflugvelli og millilandaflugvöllinn þar.
         Ekki hefur náðst samstaða um eða skapast skilyrði fyrir annan innanlandsflugvöll í nánd við höfuðborgarsvæðið, þótt ýmsar hugmyndir hafi verið nefndar. Sú stefna hefur hins vegar verið mörkuð að byrja að byggja upp á flugvallarsvæðinu, bæði í tengslum við Valssvæðið og það svæði sem Háskólinn í Reykjavík hefur fengið úthlutað. Það verður þó að forðast eins konar bútasaum í þessu efni, heldur verður í skipulagsforsendum, sem nú er verið að vinna að, að gera ráð fyrir að heildstæð byggð geti komið á þetta svæði.

Fyrirtækjum sköpuð aðstaða

  • Reykjavíkurborg þarf eftir föngum að skapa aðstöðu fyrir fyrirtæki með lóðaframboði, skipulagi og svokölluðum innviðum. Ríkið setur fyrirtækjum ramma með skattlagningu og reglugerðum sem sveitarfélögum er ætlað að fylgja eftir. Þessum reglum þarf að fylgja eðlilega eftir með hagsmuni allra borgarbúa í huga. Þó þarf sérstaklega að gæta að því að íþyngja ekki fyrirtækjum með óþarfri skriffinnsku. Þau mál þarf að endurskoða með reglubundnum hætti.

Umhverfið er okkar mál!

  • Umhverfismálin þarf að taka föstum tökum og þar geta allir lagt sitt af mörkum. Við þurfum að bæta stjórnsýsluna í kringum vatnsverndarsvæðin á höfuðborgarsvæðinu. Þar hafa mörg sveitarfélög verk að vinna. Efla þarf varnir meðfram þjóðvegum sem liggja um vatnsverndarsvæðin eða þau svæði sem teljast vatnsforðabúr okkar. Draga þarf úr loftmengun, sem við viss veðurskilyrði á vetrum fer yfir tiltekin hámörk. Það er hægt að gera með betra og vistvænna aksturslagi, umhverfisvænni ferðamáta, s.s. strætó og reiðhjólum ef það hentar, og með aðgerðum sem draga úr ýmiss konar ryki sem umferðinni fylgir.

Öflugt leikskólastarf og grunnskólastarf

  • Leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar eru lykilatriði í framtíðarvelferð borgarbúa. Reykjavíkurlistinn lyfti Grettistaki í leikskólamálum og hefur nú sett stefnuna á gjaldfrjálsan leikskóla í áföngum þar sem fyrstu skrefin hafa þegar verið stigin. Einsetning grunnskólanna er þrekvirki sem unnið hefur verið að. Hlúa þarf að hverfisskólunum og efla innra starf þeirra með ýmsu móti. Nú eru nokkuð skiptar skoðanir um vissa þætti í rekstri framhaldsskóla. Það er fyllilega athugandi að sveitarfélögin, í einhverjum tilfellum í sameiningu, taki að sér rekstur framhaldsskólanna, en til þess þurfa þau vissulega meira fjármagn. Það þarf að skoða menntunar- og launamál kennara á öllum skólastigum í ljósi þess hversu mikilvægar þessar fagstéttir eru samfélaginu í heild.

Bætum öldrunarþjónustu og fjölgum hjúkrunarrýmum

  • Öldrunarþjónusta er mjög aðþrengd á Íslandi í dag. Það á ekki hvað síst við um hjúkrunarheimili sem fá rekstrarframlag frá ríkinu sem í fæstum tilfellum dugar til að standa fyllilega undir þeirri þjónustu sem til er ætlast. Enn er nokkur skortur á hjúkrunarrýmum, einkum á suðvesturhorni landsins. Í öðrum landshlutum hefur málið stundum verið leyst með því að breyta öðrum hjúkrunarstofnunum í hjúkrunarheimili. Nú hefur verið gert samkomulag um byggingu hjúkrunarheimilis í austurbæ Reykjavíkur með 110 rýmum sem mun leysa vanda margra. Auk þess stefna Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesbær að smíði hjúkrunarheimilis í vesturbænum. Þar með leysist ýmislegt fyrir þann hóp sem er í brýnustu þörfinni fyrir stofnanavistun. En jafnframt hefur verið unnið markvisst að því að finna lausnir fyrir þann hóp aldraðra og sjúkra sem kýs að búa heima. Samþætting heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu er liður í því starfi. Að því er áfram unnið og mikilvægt að efla þann þátt verulega.

Stuðningur við íþróttir, listir og æskulýðsstarf

  • Íþrótta- og æskulýðsmál hafa verið í góðum farvegi hjá borginni. Íþróttafélögin hafa verið ríkulega studd og ýmis íþróttastarfsemi verið byggð upp í Laugardal og víðar. Uppbygging mannvirkja hefur verið öflug á undanförnum árum. Nú er vert að skoða sérstaklega stuðning við innra starf íþróttafélaganna, þannig að þau gætu fengið framlag fyrir hvern iðkanda sem þau hafa í sínum röðum. Þannig þarf að skoða sérstaklega hvort ekki verði unnt að greiða niður æfinga- og iðkendagjöld í íþróttafélögum og í ýmsum listgreinum. Slíkt er mikilvægt réttlætismál, því það er staðreynd að börn hafa flosnað upp úr ýmissi starfsemi þar sem ekki hafa reynst efni til að greiða þátttökugjöld. Stefna ber að því að öll börn í borginni geti stundað tómstundir að eigin vali með því að greiða niður æfingagjöld og önnur gjöld að hluta eða fullu.

Þjónustumiðstöðvar

  • Nýta þarf þjónustumiðstöðvarnar til fulls til að sinna þörfum hverfanna og fela þeim aukin verkefni með tilfærslu fleiri verkefna.

Jafnrétti - launajafnrétti

  • Leggja þarf aukna áherslu á jafnréttismál kynjanna á öllum sviðum og í öllum stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar. Brýnasta verkefnið til að byrja með er að tryggja launajafnrétti í reynd.

Átak gegn ofbeldi

  • Gera þarf sérstakt átak í því að vinna gegn ofbeldi í samfélaginu, kynbundnu, líkamlegu og/eða andlegu. Þar þarf meðal annars að halda áfram að efla Barnavernd Reykjavíkur, auk fleiri úrræða.

Tryggjum rétt fatlaðra

  • Það þarf að vinna betur að því að tryggja fötluðum jafnan rétt á við aðra í samfélaginu. Í sumum efnum þyrftu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að taka sig saman um að veita þjónustu við þennan hóp, t.d. er varðar ferðaþjónustu, sem er hvað þróuðust í Reykjavík. Það hlýtur hins vegar að vera sóun þegar senda þarf nokkra sérútbúna bíla í stað eins bíls til nokkurra einstaklinga á sama stað sem nýta sér þjónustu innan borgarinnar, bara vegna þess að þessir einstaklingar eiga ekki lögheimili í sama sveitarfélaginu.

Bætum stöðu samkynhneigðra

  • Vinna þarf að því að bæta stöðu samkynhneigðra í samfélaginu. Þar er eitt brýnasta verkefnið að draga úr fordómum og á því þarf að byrja strax í grunnskólum.

Útlendingar þurfa sinn rétt - og þeir hafa auðgað íslenskt samfélag

  • Fólk af erlendum uppruna hefur auðgað íslenskt samfélag. Fyrirtæki og stofnanir hafa kallað eftir fólki til starfa erlendis frá. Það er þó ekki hægt að líta á þetta fólk eingöngu sem vinnuafl. Þessir einstaklingar koma úr öðru menningarumhverfi og hafa annað tungumál að móðurmáli en íslensku. Það þarf að efla íslenskukennslu fyrir þennan hóp. Þar þurfa opinberir aðilar og þau fyrirtæki og stofnanir sem kallar fólk erlendis frá til starfa að leggjast á eitt. Gjöld fyrir málanámið mega ekki verða að hindrun í þessu efni. Svipað gildir um þá einstaklinga sem leita hér skjóls undan oki og áþján í sínu heimalandi. Koma þarf í veg fyrir að hópar af þessu tagi einangrist og að spenna skapist á milli ýmissa hópa vegna skilningsleysis og samskiptaörðugleika. Þess vegna þarf að auðvelda samskiptin og tungumálið er besta samskiptatækið. Það er því grundvallaratriði að fólk sem kemur hingað til lands læri íslenskt mál eins fljótt og auðið er. Það á að vera sameiginlegt hlutverk atvinnurekenda og opinberra aðila á sviði mennta- og velferðarmála.

Börnin í forgrunni - þau eru framtíðin - og hún þarf að vera góð

  • Tryggja þarf öllum börnum raunverulegan, jafnan rétt með því að bæta stöðu þeirra fjölskyldna sem höllustum fæti standa efnahagslega og félagslega.

  • Það þarf heilt þorp til að ala upp barn - tryggjum þeim eðlilegt tengslanet.

 

 

 

 

Stefán Jóhann Stefánsson,  netfang: stefan.johann@islandia.is, sími 895-0532