Stefán Jóhann Stefánsson                   

                                                                                                                                                                       
Forsíða
Greinar
Ræður
Trúnaðarstörf
Málefni
Menntun og störf
Áhugavert efni
 
Um Stefán Jóhann

Senda póst

Prófkjörsreglur
 
Eldri forsíðupistlar

 

Inntökubeiðnin:

Fyrri forsíðupistlar:

Takk fyrir stuðning og undirtektir (12.2.2006)
Ég vil þakka öllum þeim sem lögðu mér lið og sýndu stuðning við mig og sjónarmið mín í prófkjörsbaráttunni, sem hefur verið skemmtileg, drengileg og lærdómsrík. Nú snúum við bökum saman og stillum saman hljómmikla strengi fyrir kosningabaráttuna í vor og tökum á þreytta íhaldinu. Samfylking til sigurs í vor!

Úrslitin ljós: Dagur, Steinunn, Stefán Jón (12.2.2006)
Þegar búið var að telja öll atkvæði á kjörstað var niðurstaðan þessi (utankjörfundaratkvæði virtust ekki breyta röðinni):

1. Dagur B. Eggertsson
2. Steinunn Valdís Óskarsdóttir
3. Stefán Jón Hafstein
4. Björk Vilhelmsdóttir
5. Oddný Sturludóttir
6. Sigrún Elsa Smáradóttir
7. Dofri Hermannsson
8. Stefán Jóhann Stefánsson
9. Stefán Benediktsson
10. Guðrún Erla Geirsdóttir.

Eftir er að telja atkvæði sem kjörin voru utan kjörfundar, þannig að þetta er ekki endanleg niðurstaða.

Kosið frá 10 til 18 í dag (12.2.2006)
Tökum þátt í prófkjörinu í dag frá klukkan 10 til 18. Kosið er á eftirtöldum stöðum:

1. skrifstofu Samfylkingarfélagsins í Reykjavík,Hallveigarstíg 1.
2. félagsheimili Þróttar í Laugardal; 
3. félagsheimili Fylkis í Árbæ;
4. Visahúsinu í Mjódd;
5. Gylfaflöt 9 í Grafarvogi. 

Tökum þátt!  - Ég hef fundið fyrir góðum stuðningi og undirtektum (12.2.2006)
Nú er lokadagurinn í þessu prófkjöri hafinn. Við frambjóðendur höfum kynnt okkur og sjónarmið okkar og í kvöld sjáum við hverju það hefur skilað. Ég og mínir stuðningsmenn hafa fundið fyrir miklum og vaxandi undirtektum í prófkjörsbaráttunni. Það finnum við í samtölum við fólk og í vibrögðum við þessari heimasíðu sem er talsvert skoðuð. Ég hef fengið góð viðbrögð við greinum sem ég hef skrifað, því sem ég hef sagt á fundum og í fjölmiðlum. Ég finn að reynsla mín er metin og að sjónarmið mín eiga hljómgrunn meðal margra. Ég hvet þig, lesandi góður, til þess að taka þátt í þessu prófkjöri og setja mig í þriðja sætið, eða því sem næst. Ég finn það að margir telja það mikilvægt fyrir Samfylkinguna að hafa einstakling með mína reynslu, eiginleika og sjónarmið í baráttusveit flokksins í komandi kosningum. (Sjá hér - og hér)

Tökum þátt í opnu prófkjöri ( Grein í Morgunblaðinu 11.2.2006)
Í grein í Morgunblaðinu í dag hvet ég fólk til að taka þátt í opnu prófkjöri Samfylkingarinnar og greini frá því sem ég hef lagt áherslu á í prófkjörsbaráttunni. Sjá nánar.

Hverfablöðin: Árbær, Breiðholt, Grafarvogur og Vesturbær (11.2.2006)
Hverfablöðin gegna veigamiklu hlutverki í umræðu um borgarmálin. Viðtöl eða greinar eftir mig hafa birst í fjórum blöðum síðustu dagana. Sjá nánar.

Lokaspretturinn að hefjast (10.2.2006)
Nú hefst lokaspretturinn í prófkjörsbaráttunni. Hægt er að kjósa utankjörfundar í dag á Hallveigarstíg, en á morgun og sunnudag verður hægt að kjósa í félagsheimili Þróttar í Laugardal, hjá Visa í Mjódd, í félagsheimili Fylkis og á Gylfaflöt, þar sem Vélamiðstöðin er, auk skrifstofunnar á Hallveigarstíg. Ég og mitt stuðningsfólk höfum fengið góðar móttökur þegar við höfum haft samband við kjósendur. Það er ánægjulegt að finna fyrir því að fólk metur verk mín og sjónarmið. Ég get því ekki verið annað en bjartsýnn.

Greinar í hverfisblöðunum og dagblöðum (9.2.2006)
Í dag barst mér Árbæjarblaðið og Grafarvogsblaðið, en þar var ég með greinar um hverfismálin og borgarmálin almennt. Það er svo von á viðtali við mig í Vesturbæjarblaðinu einnig, en ég var einnig með greinar í síðustu tveimur Breiðholtsblöðum. Það er mikilvægt að nýta þessi blöð til að koma á framfæri upplýsingum um borgarmálin. Þá var ég með grein um prófkjörsmálin í Morgunblaðinu í gær. Þessar greinar verða aðgengilegar hér á vefnum.

Spurt og svarað: Hjólreiðabrautir (9.2.2006)
Magnús Bergsson sendi mér spurningar um hjólreiðabrautir. Ég gat greint honum frá áherslum okkar í umhverfisráði á auknar hjólreiðar og sagt frá reynslu minni við að hjóla á milli miðbæjar og Breiðholts. Sjá nánar. Lesendum er velkomið að senda mér spurningar um hvaðeina og mun ég reyna að svara svo fljótt sem kostur er.

Fjör á fundi með frambjóðendum í kvöld (8.2.2006)
Það var líf og fjör í kvöld á fundi með frambjóðendum á skemmtistaðnum Nasa við Austurvöll. Salurinn var þétt setinn borgarbúum og hluta fundarins var sjónvarpað á Stöð 2.  Þarna fóru fram kappræður á milli þeirra þriggja sem keppa um fyrsta sætið og gátu gestir borið fram spurningar úr sal. Þetta var ágætt fundarform því það sýndi frambjóðendur í skemmtilegu ljósi og það að þeir eru þess albúnir að taka slaginn í kosningunum í vor.

Í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 - Ísland í bítið (8.2.2006)
Stöð 2 hefur kynnt flesta frambjóðendur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík og í morgun var komið að mér og tveimur öðrum meðframbjóðendum. Sjá hér.

Spurt og svarað (7.2.2006)
Mér hafa borist spurningar frá nokkrum einstaklingum, m.a. frá Gísla Sigurðssyni, um almenningssamgöngur, kjarasamninga og kjaramál. Sjá spurningar og svör hér.

Borgarstjórnarfundur í dag (7.2.2006)
Í dag sótti ég borgarstjórnarfund, en þar var helsta mál til umræðu þriggja ára áætlun um rekstur, fjárfestingar og fjármál Reykjavíkurborgar. Nokkuð var einnig rætt um þátttöku borgarinnar í Landsvirkjun, ásamt því sem fundargerðir ýmissa nefnda voru til umræðu. Nánar um þetta síðar.

Kærkominn stuðningur (7.2.2006)
Það er alltaf gott að fá stuðning við það sem maður er að gera, en ég hef fengið sendar eftirfarandi línur:

Ég styð framboð
Stefáns Jóhanns


Eftir að hafa starfað með Stefáni Jóhanni Stefánssyni innan Samfylkingarinnar um nokkurt árabil vefst það ekki fyrir mér að styðja framboð hans í prófkjöri flokksins til borgarstjórnar. Hann hefur enda sýnt það í verkum sínum fyrir borgina á yfirstandandi kjörtímabili að hann er traustsins verður. Í honum blandast hin hægláta ákveðni, réttlætiskennd og dugnaður hins sannfærða jafnaðarmanns. Það er þannig fólk sem ég vil að veljist í efstu sæti borgarstjórnarlista Samfylkingarinnar. Þess vegna styð ég Stefán Jóhann og hvet aðra til að gera slíkt hið sama.

Haukur Már Haraldsson, framhaldsskólakennari

Þá hef ég fengið tölvuskeyti í svipaða veru - og í einu þeirra sagði meðal annars:

„Ég er jafnaðarmaður. Ég hef verið að skoða málefni frambjóðenda og verð að segja að ég er mest sammála þér í flestum málaflokkum. Eins og kannski margir hefur maður verið utan stjórnmálahringiðunnar en erfiðara og erfiðara reynist að halda sér fyrir utan því lengra sem líður á lífið. Kannski verður breyting þar á á næstu árum.
 
En þú getur treyst á mitt atkvæði.“

Sjá frekari stuðning hér. (Upphaf síðu)

Ungum er það allra best... (Grein á politik.is 6.2.2006)
Ritstjóri á pólitík.is, sem er vefrit Ungra jafnaðarmanna, ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, bauð mér að birta grein í tilefni af prófkjörsbaráttunni. Greinin fjallar um nokkur helstu hagsmunamál ungs fólks, svo sem um menntamál, húsnæðismál, lánamál og leikskólamál, auk almennra hagsmunamála borgarbúa. Sjá nánar á Politik.is.

Fundur í umhverfisráði í dag (6.2.2006)
Í dag var fundur í umhverfisráði Reykjavíkur og þar var ýmislegt á dagskrá. Við ræddum mögulega staðsetningu á aðstöðu fyrir trúarsöfnuði, en umhverfisráð þarf að gefa umsögn um staðsetningu á lóðum fyrir rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna, Ásatrúarsöfnuðinn og Félag íslenskra múslima. Skipulags- og byggingarsvið vill að við skoðum staðsetningu á Landakotstúni fyrir rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna, í Öskjuhlíð fyrir Ásatrúarsöfnuðinn og í hluta Elliðaárdals, þ.e. við gatnamót Stekkjarbakka og Breiðholtsbrautar, fyrir Félag íslenskra múslima. Málinu var frestað, en unnin verður umsögn um málið, þar sem tekið verður mið af þeim umhverfislegu athugasemdum sem komið hafa fram.
     Annað mál sem kom til umræðu var aðstaða í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, en í þessu gamla húsi sem var byggt að sögn árið 1874 skortir ýmis nútíma þægindi. Fangelsismálayfirvöld hafa ekki, í nokkurn tíma, getað uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til svona húsnæðis og fá nú 60 daga frest til þess að bregðast við.
     Hugmynd að göngubrú yfir Hringbraut, milli bræðraborgarstígs og Framnesvegar var til umræðu. Markmiðið með hugmyndinni er að auka öryggi gangandi vegfarenda, en aðstæður þykja því miður það þröngar að erfitt gæti orðið að koma þarna fyrir göngubrú. Þá var samþykkt tillaga að framkvæmdum á útivistarsvæðum í borginni, samþykkt að koma fyrir umhverfisskiltum í miðborginni, skipað í stýrihóp fyrir evrópsku samgönguvikuna, rætt um umhverfisverðlaun Reykjavíkur og innköllun á matvælum vegna gerlamengunar. Þá fengum við kynningu á aðgerðum vegna meindýra (músa) í tilteknum skóla í borginni, en þar þurfti stórhreingerningu til að laga ástandið og er það nú orðið gott.
     Á þessu má sjá að fundarefni umhverfisráðs eru fjölbreytt og fróðleg, enda snerta þau mörg hver daglegt líf borgarbúa.

Prófkjörsframbjóðendur í fjölmiðlum (5.2.2006)
Það er líf og fjör í prófkjörsbaráttunni. Við reynum að koma okkar sjónarmiðum á framfæri með skrifum, útsendingum og úthringingum. Ég og stuðningsfólk mitt höfum fengið góð viðbrögð frá ýmsum á förnum vegi, í símtölum og tölvuskeytum. Síðustu daga hafa frambjóðendur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík komið fram í ýmsum fjölmiðlum. Nú um þessa helgi hafa það einkum verið þeir sem bjóða sig fram í fyrsta sætið og svo þeir sem fjölmiðlarnir nefna nýliða. Allir hafa þessir frambjóðendur staðið sig með prýði, þótt eflaust hafi dagsformið skipt máli hjá einhverjum eins og stundum er sagt. Frambjóðendur til fyrsta sætis voru í skemmtilegum þætti hjá Agli í Silfri Egils nú eftir hádegið. Þar var reyndar Egill í essinu sínu, sem fyrri daginn þegar skipulagsmál eru til umræðu, og hann sótti nokkuð fast sem góðra fréttamanna er siður. En okkar fólk útskýrði mál sitt vel. Þá var talsvert fjallað um önnur mál sem snerta lífsgæðin í borginni, svo sem leikskólamál, skólamál og kjaramál. Umræðan um þessi mál sýnir að við höfum haldið vel á spilunum, þótt alltaf megi betur gera. Ég er sannfærður um að þegar þau mál sem við höfum verið að vinna að síðustu misseri og ár verða meira í umræðunni og þau stefnumál sem við stöndum fyrir muni Samfylkingin auka verulega fylgi sitt og að við munum verða á góðri siglingu fram að kosningum í vor. Það skiptir máli hvernig úrslitin verða í vor. Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki sjá neitt athugavert við aukna misskiptingu í samfélaginu og vill á flestum stundum draga úr þjónustu við borgarbúa, þótt stundum sé reyndar erfitt að átta sig á vilja sumra borgarfulltrúa. Samfylkingin vill tryggja góða þjónustu í skólamálum, velferðarmálum og við viljum draga úr þeirri misskiptingu sem farið hefur vaxandi.

Gjaldfrjáls leikskóli í höfn (3.2.2006)
Það var ánægjulegt að fá þær fréttir úr borgarráði í gær að búið er að leggja línurnar fyrir gjaldfrjálsa leikskóladvöl í Reykjavík. Haustið 2008 verður gjaldfrjáls leikskóladvöl í Reykjavík orðin að veruleika samkvæmt frumvarpi að þriggja ára áætlun um rekstur, fjárfestingar og fjármál borgarinnar sem lagt var fram í borgarráði í gær. Fimm ára börn fengu þrjár gjaldfrjálsar stundir á dag haustið 2004, öll börn tvær stundir um síðustu áramót og gert er ráð fyrir að gjaldskrá allra barna lækki um sem nemur tveimur stundum til viðbótar haustið 2007. Fjórða og síðasta skrefið verður svo stigið haustið 2008 samkvæmt áætluninni. Þá munu öll börn njóta 7 tíma gjaldfrjálsrar vistunar á leikskólum borgarinnar. Sjá nánar á vef borgarinnar.

Hvað sagði DV? Að ég kæmi á óvart? (3.2.2006)
Ég var að vafra um á vefjunum eins og gengur og sá þá ummæli meðframbjóðanda míns þar sem hann sagði að í DV hefði staðið sl. þriðjudag að talið væri að ég myndi koma einna mest á óvart í prófkjörinu ásamt öðrum frambjóðanda. Ég hef verið svo upptekinn að ég hef ekki tekið eftir þessu í DV, en treysti því að meðframbjóðandi minn hafi rétt eftir - og ég kem þessu hér með á framfæri!

Skipulag út frá kvennasjónarmiðum og grasrótin í borginni (3.2.2006)
Það var ýmislegt að gerast í borginni í gær sem vert er að vekja athygli á. Síðdegis bauð borgarstjórinn í móttöku í Höfða þar sem hún þakkaði forsvarsfólki fjölmargra samtaka sem vinna að ýmsum velferðarmálum fyrir vel unnin störf. Það fór vel á því að sýna þessum fjölda fólks virðingarvott fyrir gífurlega gott og árangursríkt starf í mörgum og erfiðum málaflokkum.

Í hádeginu sótti ég áhugaverðan fyrirlestur á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, en þar fjallaði Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur og sviðsstjóri á Skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar um kyn og skipulagsmál. Af umræðunni að dæma eru sjónarmið kvenna að sækja í sig veðrið í skipulagsmálum, því þéttari byggð og blönduð hverfi eru ekki aðeins hagkvæmari, umhverfisvænni og heilsusamlegri, heldur samræmast þau betur sjónarmiðum og þörfum kvenna. Ég verð víst að viðurkenna það að þótt mér líði ágætlega hér í Seljahverfinu, þá væri það að ýmsu leyti fjölskylduvænna að vinna ekki eins fjarri heimilinu og ég geri.

Þjónustuborgin Reykjavík (3.2.2006)
Reykjavíkurborg þjónustar íbúana á margvíslegan hátt, en útgjöldin eru ríflega 40 milljarðar króna á ári. Um helmingur fer í skólamálin, og er það vel, enda er með því lagður góður grunnur að lífi unga fólksins. Ég tel að það sé mikilvægt að hlúa vel að hverfisskólunum, sem eru oft mikilvægustu menningarstofnanir í hverju hverfi. Það þarf að tryggja góða fjölbreytni í starfinu þannig að hægt sé að koma sem mest til móts við þarfir hvers og eins nemenda. Þá tel ég að það verði að skoða vel hvort ekki beri að niðurgreiða skólamatinn meira en nú er gert. Ennfremur verður forgangsverkefni á næstu árum að endurbæta skólalóðir. Við þurfum sífellt að huga að þróun námsins, t.d. með því að vera með góðan tölvubúnað, en við megum ekki gleyma því að fá börnin til að hreyfa sig. Leikskólastarfið þarf ennfremur að þróa og efla, en það hefur verið athyglisvert að fræðast um tilraunastarf sem unnið hefur verið í leikskólum í samstarfi við Kennaraháskóla Íslands. Það sýnir að það er margt hægt að gera með börnum strax í leikskóla.

Börnin eru framtíðin
Í félagsmálum er einna brýnast að bæta stöðu þeirra barna sem búa við erfiðastar aðstæður. Það er gert með ýmsu móti á Velferðarsviði borgarinnar, en betur má ef duga skal. Það er einkum mikilvægt að tryggja að Barnaverndin geti unnið vel og skipulega að þeim erfiðu málum sem hún sinnir. Hún hefur fengið til þess aukinn styrk og ég hef trú á að með því að færa þjónustuna nær íbúunum, m.a. með stofnun þjónustumiðstöðva í hverfum, verði hægt að efla þessa þjónustu.

Ég vil auka jafnræði meðal barnanna í borginni. Liður í því er að draga sem mest úr þeim gjöldum sem foreldrar þurfa að greiða fyrir ýmsa tómstundaiðkun barnanna. Við vitum að gjöldin geta verið hindrun, og mér finnst að við eigum að klára sem fyrst þá vinnu sem hafin er við að meta hvernig hægt verði að koma á ókeypis íþrótta- og listiðkun barna upp að vissum aldri.

Virðum aldraða
Málefni aldraðra þarf að taka fastari tökum. Margt hefur verið gert, en það er líka ýmislegt óklárað. Einna brýnast er að ljúka sem fyrst að byggja nýtt hjúkrunarheimili með 110 hjúkrunarrýmum í Sogamýri þannig að hægt verði að bjóða þeim rými sem eru í brýnni þörf fyrir slíkt. Jafnframt þarf að halda áfram samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu þannig að aldraðir geti haft val um að búa lengur heima. Þá þarf í samstarfi við ríkisvaldið að fara heildstætt yfir málefni aldraðra. Við þurfum að sýna öldruðum meiri virðingu en tilhneiging hefur verið til á síðustu áratugum.

Jafnrétti
Jafnréttismál eru mikilvægur málaflokkur sem vinna þarf vel í. Það hefur ýmislegt áunnist í jafnréttisbaráttu kvenna á umliðnum áratugum, en samt er enn langt í land með að jafnrétti náist. Einna brýnast er að vinna einarðlega að því áfram að útrýma þeim kynbundna launamun sem enn er til staðar. Þá þarf að láta jafnréttisumræðuna í ríkari mæli ná til fleiri hópa. Við þurfum að bæta stöðu fatlaðra, samkynhneigðra og nýbúa. Þar þurfum að vinna að því að samþykkja sérstaka mannréttindastefnu sem unnið er að. Það þarf að tryggja fötluðum sama aðgengi og öðrum að lífsins gæðum, það þarf að styrkja stöðu samkynhneigðra og koma í veg fyrir aðgreiningu nýbúa. Eitt mikilvægasta tækið til þess að koma í veg fyrir aðgreiningu nýbúa er að efla íslenskukennslu á meðal þeirra, einkum fullorðinna nýbúa – og það þarf að fá fyrirtæki og stofnanir til liðs við okkur í þeim efnum.

Nýtum vel land, umhverfi og fé
Skipulagsmál og umhverfismál eru stór og mikilvægur málaflokkur. Það þarf að tryggja fjölbreytta uppbyggingu sem þjónar borgarbúunum sem best. Það er brýnt að nýta borgarlandið vel, en nú fer um helmingur þess undir umferðarmannvirki og aðliggjandi svæði. Við þurfum auðvitað að komast leiðar okkar á greiðan hátt, en þegar svona er komið verðum við aðeins að staldra við. Það þarf að þétta byggðina betur og við þurfum að huga aðeins betur að því hvernig við keyrum og ferðumst um borgina. Svifryk frá umferðinni er að verða vandamál og við því þarf að bregðast.

Það er af mörgu að taka þegar ræða þarf um þá fjölbreyttu þjónustu sem borgin á að sinna. Það verður þó ætíð að hugsa til framtíðar í þessum efnum. Við þurfum ekki aðeins að byggja upp góðan grunn fyrir framtíðarkynslóðir með góðu skólastarfi, félagsstarfi og skynsamlegri nýtingu lands og umhverfis, heldur þurfum við ætíð að gæta að því að fara vel með það fé sem okkur er trúað fyrir og hér eftir sem hingað til að vera framsýn í þeim efnum.

Nokkur helstu áherslumál (1.2.2006)

  • Ég vil efla framsækið skólastarf frá leikskólum til háskóla, m.a. til að jafna stöðu barna og ungmenna. Góðir hverfisskólar á grunnskólastigi eru lykilatriði, en efla þarf kennslu á leikskólastigi.

  • Lengja þarf fæðingarorlof, fjölga dagvistarrýmum og auka framboð á leikskólaplássum. Ég vil að börnum á vissum aldri verði gefinn kostur á gjaldfrjálsum íþróttum og listum. Við eigum að bæta aðstöðu barna sem búa við erfiðar aðstæður.

  • Borgin á að annast sameinaða heimahjúkrun og heimaþjónustu og auðvelda öldruðum enn frekar að búa í eigin húsnæði, auk þess sem bæta á sem fyrst við hjúkrunarrýmum til að eyða biðlistum.

  • Ég vil að Reykjavík verði áfram í fremstu röð sem vinnuveitandi. Við eigum að útrýma kynbundnum launamun, jafna stöðu kynjanna, vinna gegn ofbeldi gegn konum og börnum og gegn klámvæðingu. Við eigum að bæta stöðu fatlaðra, samkynhneigðra, aldraðra og nýbúa með nýrri mannréttindastefnu.

  • Við eigum að þétta byggð hæfilega mikið og byggja upp ný og fjölbreytt hverfi með góðu aðgengi að útivistarsvæðum. Við eigum að bæta loftgæði sem önnur gæði.

  • Ég vil að fjármálastjórn borgarinnar verði ábyrg og framsýn til þess að hægt verði að veita þá þjónustu sem við viljum.

     

Kynning á frambjóðandanum og fleiri á NFS í gær (31.1.2006)
Í gær mætti ég til viðræðna við stjórnendur síðdegisþáttar á Nýju fréttastöðinni, NFS. Með mér voru tveir meðframbjóðendur mínir, þau Oddný Sturludóttir og Kjartan Valgarðsson. Hægt er að horfa á þáttinn hér.

Er á Útvarpi sögu í kvöld kl. 22.00 (30.1.2006)
Í dag fór ég á Útvarp sögu og ræddi við Kjartan Gunnar Kjartansson á milli 14 og 15. Á þeim tíma ræddum við ýmislegt sem á daga mína hefur drifið og um helstu stefnumál í borginni. Þátturinn verður endurtekinn í kvöld kl. 22.00 á FM 99,6.

Jákvæðar undirtektir á frambjóðendafundinum í gær (29.1.2006)
Eftir frambjóðendafundinn í gær komu nokkrir fundargesta til mín og óskuðu mér til hamingju með frammistöðu mína og sögðu að þeim hefði líkað vel málflutningur minn. Jafnframt létu þeir þess getið að þeir ætluðu að kjósa mig. Þetta fannst mér náttúrulega afar ánægjulegt. Einnig fannst mér afar ánægjulegt að fá eftir fundinn tölvuskeyti frá félaga okkar, Sigurði Ásbjörnssyni, sem var í svipaða veru, en þar segir meðal annars:

Sæll Stefán Jóhann!

Ég sendi þér línu til að hrósa þér fyrir frammistöðuna á fundunum í dag. Til þessa hef ég eingöngu verið búinn að ákveða hvern ég vil styðja í efsta sæti Samfylkingar og síðan hafði ég ákveðið að flétta kynjunum á víxl. Eftir að hafa fylgst með skrifum þínum á heimasíðu þinni og í fjölmiðlum þá hefur tiltrú mín á þér vaxið en eftir málefnastarfið í haust þá hef ég haft hugmynd um fyrir hvað þú stendur. Síðan ertu sú manngerð sem ég met hvað mest, þ.e. æsinga- og öfgalaus en rökvís. Ég hef til þessa ekki verið ákveðinn um hvernig ég merki við sæti 3-12 í prófkjörinu en það var ágætishjálp í þessum kynningarfundi í dag. Ég ætla því að upplýsa þig um það að ég styð þig í það sem ég kalla öruggt sæti í prófkjörinu eftir 2 vikur. Ég þori ekki að lofa því að ég styðji þig í þriðja sætið þar sem ég hef ekki endanlega púslað í kollinum hvernig ég vil hafa röðina en þú átt tvímælalaust erindi í borgarstjórn. Ég vænti því góðs af áframhaldandi samstarfi okkar í málefnahópunum eftir prófkjör og óska þér góðs gengis í baráttunni í prófkjörsslagnum.
.... 

baráttukveðjur,
Sigurður Ásbjörnsson

Sjá hér líka stuðning við Stefán.

 

 

Sunnudagspistillinn, 29.1.2006

Þegar kratahöfðinginn á Ísafirði meinaði mér inngöngu

Það var eitt sinn á uppvaxtarárum mínum fyrir vestan að ég sá auglýsingu í glugga bókaverslunar staðarins um að Sighvatur Björgvinsson, sem líklega var orðinn þingmaður, yrði með fund um kvöldið á vegum Alþýðuflokksins í Alþýðuhúsinu. Ég hugði nú gott til glóðarinnar að berja þennan merka mann almennilega augum og heyra almennilega pólitíska ræðu og ákvað því að mæta á fundinn um kvöldið. Þegar ég mætti í Alþýðuhúsið og þrammaði upp tröppurnar upp á efri hæð í húsinu stóð hins vegar einn helsti kratahöfðinginn á staðnum, ungur maður á uppleið í ísfirsku stjórnmála- og atvinnulífi, þver í dyrunum og vildi ekki hleypa mér inn. Hann sagði að fundurinn væri einungis fyrir flokksbundna. Ég varð náttúrulega sár og svekktur, og mér hugkvæmdist því ekki að æskja inngöngu í flokkinn. Það var því stúrinn unglingur sem lallaði heim til sín eftir fyrstu tilraun sína til að vera með í pólitík. Ég vann lítillega við Vestfirska fréttablaðið með menntaskólanáminu á þessum tíma og þegar ég greindi ritstjóra blaðsins frá þessu í trúnaði, hló hann og sagði að Sighvatur hefði ekki viljað fá neinn útsendara íhaldsins á fundinn! Þá varð ég nú ennþá svekktari, því að ég taldi mig nú fremur hægfara miðjumann – ekki íhald og ekki heldur komma. Ég var svo sem ekkert að flíka skoðunum mínum, en kannski hafði það frést um bæinn þegar ég tók þátt í því í ritnefnd menntaskólablaðsins að úthýsa skrifum rauðra róttæklinga um pólitík til að gera blaðið seljanlegra á staðnum! Öflug dyravarsla kratahöfðingjans seinkaði því um rúm 20 ár að ég gengi í Alþýðuflokkinn, en þá fékk ég inngöngu og til öryggis fékk ég meðmæli bæði frá Jóni Baldvini og Össuri Skarphéðinssyni (sjá mynd hér til vinstri). Fáeinum árum síðar tók ég virkan þátt í stofnun Samfylkingarinnar.

Góður fundur með frambjóðendum í dag (28.1.2006) 
Kynningarfundurinn sem haldinn var með frambjóðendum í prófkjöri Samfylkingarinnar á Hallveigarstíg í dag tókst í alla staði mjög vel. Fundurinn var vel undirbúinn og skipulagður af hálfu þeirra sem félagið fékk til þess. Fundarformið var líflegt, þar sem frambjóðendur skiptust á að sitja í pallborði, fjórir og fjórir í einu, og fundarstjórinn, Einar Karl Haraldsson, lagði fram fjölmargar spurningar um aðskiljanleg efni.

Gott skipulag á fundinum
Það var greinilegt að frambjóðendur voru strax vel með á nótunum og í startholunum þegar að þeim var komið, en hver fékk að sitja í pallborði í 20 mínútur. Fólk nýtti tíma sinn vel og bar fram ýmis efni sem því voru hugleikin um leið og það svaraði óviðbúnum spurningum fundarstjórans, sem sumar hverjar komu frá fólki í salnum. Heiða Pálmadóttir sá til þess að allir fengu jafnan tíma og sýndi öllum rauða spjaldið þegar tími þeirra var runninn út. Ásgeir Beinteinsson sá svo um að safna spurningum saman úr sal og aðstoða við framkvæmd fundarins.

Fundargestir ánægðir
Mér heyrðist á fundargestum að þeir hefðu margir verið ánægðir með þetta form. Á fundinum fékk ég m.a. spurningar um eflingu skólastarfsins, hugsanlega styttingu grunnskólans og fleira. Ég sé nú á þessu stigi ekki ástæðu til að hrófla við lengd grunnsólanámsins, og sagði á fundinum að það þyrfti fremur að huga að því hvernig tíminn væri nýttur fremur en hversu langur hann væri. Ég vísaði til nýjunga og tilrauna sem verið er að gera, m.a. á leikskólastigi með kennslu í eðlisfræði, en þar hafa leikskólakennarar í samvinnu við sérfræðinga frá Kennaraháskóla Íslands látið leikskólanemendur gera ýmsar tilraunir og að mati þeirra sem unnu að þessu verkefni vaknaði mikill og jafnvel óvæntur áhugi hjá krökkunum á efninu. Það er mikilvægt að leikskólanemendur fái tækifæri til að þroska sig með þessum hætti, og sérstaklega mikilvægt að öllum börnum standi gott leikskólastarf jafnt til boða. Það er nefnilega þannig að vel skipulagt og vel útfært skólastarf, þar sem allir nemendur fá góða kennslu og sitja við sama borð, er ein besta leiðin til að jafna stöðu barna á upphafsárum lífsins, og því um leið eitt besta jöfnunartækið sem við höfum.

Ég var einnig spurður út í húsnæðismál fyrir tekjulága og vísaði þar til þess að það þyrfti að halda áfram að kaupa íbúðir sem leigðar yrðu út, en minnti jafnframt á sérstakar húsaleigubætur sem Reykjavíkurborg tók upp fyrir þá sem eru í erfiðum aðstæðum. Það fyrirkomulag hefur reynst mjög vel, en þeir sem fá sérstakar húsaleigubætur geta nýtt þær til þess að greiða fyrir leigu á almennum markaði.

Margt fleira kom til umræðu. Ég benti m.a. á í umræðu um stöðu fólks af erlendum uppruna, að mikilvægast í því efni væri að foreldrar lærðu fljótt íslensku til að þurfa ekki að leggja of mikið á börnin og að atvinnurekendur sem flyttu erlenda starfsmenn til landsins þyrftu að sjá til þess að þeim byðist íslenskukennsla án endurgjalds.

Jafnréttismál
Þá fór ég einnig inn á jafnréttismál, og sagði að þar væri veigamesta verkefnið jafnrétti kynjanna og það að eyða kynbundnum launamun. Jafnframt þyrfti að gera átak í réttindamálum ýmissa hópa, svo sem fatlaðra, samkynhneigðra, útlendinga og aldraðra, t.d. með því að samþykkja sérstaka mannréttindastefnu. Á þessu sviði þyrfti að breyta viðhorfum, sem væri oft fyrsta skrefið í átt til raunverulegs jafnréttis.

Varðandi vanda foreldra barna á aldrinum 9 til 18 mánaða sagði ég að þar skipti miklu að lengja fæðingarorlofi jafnframt því sem fjölga þyrfti dagvistarplássum. Jafnframt varaði ég við því að framkvæmd tillagna um heimagreiðslur til foreldra og aðstandenda þeirra gæti haft í för með sér að það yrðu fyrst og fremst konur sem yrðu eftir inni á heimilunum. Erlendis hafa hugmyndir af þessu tagi verið kallaðar „kvennagildra“ eða álíka nöfnum, en flestir sérfræðingar vara við þessari aðferð – og yfirleitt eru það hægri menn sem koma með tillögur af þessu tagi.

Nokkuð var rætt um málefni aldraðra. Þar sagði ég meðal annars að miðað við stöðuna í dag væri forgangsverkefni að ljúka smíði nýs hjúkrunarheimilis með 110  rýmum og vinna þannig á biðlista þeirra sem eru í brýnni þörf fyrir þjónustu. Jafnframt þyrfti að ljúka því verki að samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu og gera þannig þeim sem það vilja betur kleift að búa heima hjá sér.

Margt fleira kom fram á fundinum, en ég var aðallega spurður út í þá málaflokka sem ég hef sinnt, og þá einkum velferðarmálin.

Nánar um Stefán Jóhann  (25.1.2006)
Ég hef verið í borgarstjórnarhópi Reykjavíkurlistans á þessu kjörtímabili og setið í velferðarráði, jafnréttisnefnd og umhverfisráði, í stjórn hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar og var formaður stjórnar Innkaupastofnunar og stjórnar Vélamiðstöðvar ehf.

Ég starfa í Seðlabanka Íslands og er part úr ári stundakennari við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Ég bý í Seljahverfi í Breiðholti, en bjó áður í Bakkahverfinu. Eiginkona mín er Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur á Vinnueftirliti ríkisins. Við eigum þrjá stráka, 22ja, 18 og 14 ára gamla. Hundurinn Bjartur fylgir fjölskyldunni.

Strákarnir hafa gengið í Breiðholtsskóla og Seljaskóla, Versló, MS og HÍ. Þeir hafa stundað tónlistarnám og íþróttir með ÍR.  Um tíma var ég formaður í knattspyrnudeild ÍR, m.a. þegar liðið komst upp og lék í úrvalsdeildinni.

Svíþjóðardvöl
Áður en við fluttum í Breiðholtið bjuggum við í nokkur ár í Lundi í Svíþjóð þar sem við stunduðum nám og vinnu. Ég hafði lokið BA-prófi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og í Lundi skipti ég yfir í hagfræði, samtímis sem ég sinnti fréttamennsku fyrir Ríkisútvarpið. Ég lauk grunnprófi og svo Masters-prófi í þjóðhagfræði, og sendi fréttir frá Svíþjóð, Danmörku og Póllandi, en ég hafði um tíma starfað á fréttastofu Útvarps áður en við fluttum út. Einna eftirminnilegast úr þeim störfum var að fylgjast með falli kommúnismans í Póllandi, hitta Lech Walesa og félaga hans í Gdansk og lenda fyrir vikið í krumlum öryggislögreglu kommúnistastjórnarinnar. Umfjöllun um morðið á Olof Palme og eftirmál þess var einnig með stærri málum á þessum tíma.

Upphafið á Ísafirði
Ég er fæddur og uppalinn á Ísafirði, þar sem ég gekk í barnaskóla hjá krataforingjanum Björgvini Sighvatssyni og menntaskóla hjá Jóni Baldvini Hannibalssyni og Bryndísi Schram, auk þess sem ég lærði að blása í lúður í tónlistarskóla og leika eftir nótum. Faðir minn var húsasmiður og móðir mín húsmóðir og sá um stóran hóp barna. Á Ísafirði stunduðum við unglingarnir öll almenn störf til sjávar og sveita, og þar kynntist ég helstu iðnaðarstörfum, sjómennsku, fiskvinnslu, blaðamennsku og verslunarstörfum. Leikvellirnir voru fjörurnar, bátarnir í höfninni, göturnar byggingar í smíðum, fjallshlíðarnar og kræklóttir, lítt malbikaðir vegirnir um heiðar og firði, og ennfremur fáeinir skipulagðir leikvellir. Skíðaferðir voru talsvert stundaðar, en hetjur hafsins voru að jafnaði í mestum metum á þessum tíma.

Ólafur Ragnar, Steingrímur og fleiri pólitíkusar í H.Í.
Að loknu menntaskólanámi lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem ég las stjórnmálafræði hjá Ólafi Ragnari, Svani Kristjáns og fleirum og var kallaður til starfa í stúdentapólitíkinni, og var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Það var í lok blómabyltingarinnar, eða eftir hana árið 1981, og við tókum ýmsa glímu við íhaldið í háskólanum um lánasjóð námsmanna, auk þess sem við studdum frelsisbaráttuna í Nikaragúa og baráttuna gegn kóka-kóla í Suður-Ameríku eins og skylda var í anda blómabarnanna! Svo skutum við skjólshúsi yfir landflótta Frakka, Gervasoni, og ræddum um pólitíska innrætingu eftir að dönskukennara var vikið úr störfum fyrir að fjalla um texta Karls Marx. Það var nú þá.

Flottasti pólitíski fundurinn sem ég man eftir á þessum árum var þegar Ólafur Ragnar atti kappi við Björn Bjarnason á fundi í Félagsstofnun stúdenta. Rætt var einkum um utanríkismál og Ólafur hafði flesta fundarmenn á sínu bandi og fór á kostum. Annar þjóðþekktur maður var samferða mér í stúdentapólitíkinni. Steingrímur Sigfússon, stúdentagarðsforingi, hafði þá þegar ráð undir óbrotnu rifi hverju, var strax mælskur sem vel smurð átta strokka vél, en ég hef nú varla fyrirgefið honum enn fyrir það að hann, ásamt öðrum, kom í veg fyrir að við vinstri menn færum í meirihlutasamstarf með umbótasinnuðum stúdentum. Hreinstefnan skyldi varðveitt líkt og hjá ýmsum seinni tíma VinstriGrænum! Össur og Ingibjörg voru þarna aðeins á undan, en Hannes boðaði enn fagnaðarerindið. Nú er þetta breytt í Háskólanum. Pólitísk umræða er á rólegri nótum.  Það er svo sem allt gott og blessað.

Framhaldið
Nú stefni ég að ná borgarfulltrúasæti og sinna því af kostgæfni í anda jafnaðarmennsku á næstu fjórum árum. Það er gaman að taka þátt í prófkjörinu, nóg að gera og allt að lifna við, Samfylkingunni í hag. Ég finn að við erum að fá byr og við ætlum að halda honum til vors. Ég hlakka til þeirrar baráttu.

                                                       Samfylking til sigurs!

 

Velferðarráð borgarinnar:
Áhersla á börn, aldraða, fatlaða og tekjulága - lætur kanna spilafíkn meðal ungs fólks
 (20.1.2006)
Á fundi velferðarráðs síðastliðinn miðvikudag var þriggja ára áætlun í þjónustu og útgjöldum Velferðarsviðs borgarinnar til umræðu. Þjónustan í velferðarmálum er margþætt, þ.e. allt frá heimilishjálp af ýmsu tagi yfir í fjárhagsaðstoð, frá námskeiðum og menntunarstyrkjum yfir í sérhæfða félags- og sálfræðiþjónustu, húsnæðisaðstoð, niðurgreiddar matarsendingar og margt fleira. Nú er það svo að starfsfólk í þjónustumiðstöðvum í hverfum borgarinnar sér að mestu leyti um að veita þjónustu við borgarbúa í samræmi við þjónustusamning Velferðarsviðs og Þjónustu- og rekstrarsviðs borgarinnar.

Á fundi ráðsins var samkomulag um að leggja sem fyrr áherslu á stuðning og aðstoð við fátæk börn og börn í áhættuhópum, og ennfremur að samþætta betur og auka þjónustu við aldraða og fatlaða í heimahúsum, auka stuðning við tekjulágt fólk í húsnæðisvanda og auka lífsgæði fyrir þá sem hafa fengið fjárhagsaðstoð í langan tíma.

Eitt af átaksverkefnum á næstu árum verður innleiðing nýrrar kvöld- og helgarþjónustu, m.a. í samstarfi við heimahjúkrun, og auk þess verður lögð áhersla á að styðja heimilislausa með ýmsum ráðum, en um fimm tugir karla og um tugur kvenna á hvergi höfði sínu að halla að jafnaði að því talið er.

Á fundi velferðarráðsins síðasta miðvikudag vakti ég athygli á upplýsingum sem fram hafa komið um aukinn vanda fólks, einkum ungs fólks, í tengslum við spilafíkn, en þekkt er að hún getur haft afdrifaríkar félagslegar afleiðingar fyrir heilu fjölskyldurnar. Ráðið samþykkti einróma tillögu mína um að fela sviðsstjóra að láta fara fram vinnu meðal starfsmanna sinna til að kanna af þessu tilefni spilafíkn meðal ungs fólks og koma með ábendingar um úrræði ef þörf krefur.

Borgarstjórnarfundur í dag:
Þjórsárver, strætó, Árbær, Grafarholt og loftgæði
 (17.1.2006)
Fundurinn í borgarstjórn sem ég sótti í dag var um margt merkilegur. Mesta athygli vakti samþykkt borgarstjórnar um að borgin í krafti 45% eignarhluta síns í Landsvirkjun legðist gegn öllum frekari virkjunarframkvæmdum í Þjórsárverum og að fallið yrði frá gerð Norðlingaölduveitu. Ennfremur var því beint til Landsvirkjunar að skoða möguleika á uppbyggingu gufuaflsvirkjana, sem er umhverfisvænni kostur en vatnsaflsvirkjanir. Borgarstjórn samþykkti þetta með 9 atkvæðum fulltrúa Reykjavíkurlistans og Frjálslyndra, en Sjálfstæðismenn sátu hjá, en í bókun þeirra kemur fram viss stuðningur við samþykktina, þótt ekki sé hann eindreginn.
     Á borgarstjórnarfundinum var einnig rætt um fargjöld í strætó og stjórn samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu falið að kanna kosti þess að fella gjöld niður fyrir vissa hópa á tilteknum tímum. Þá var rætt um málefni Árbæjar og Grafarholts.
     Í lok fundarins minnti ég á þá umræðu sem á sér stað fyrir tilstilli umhverfisráðs og Umhverfissviðs um loftgæði í Reykjavík, samgöngumál og nagladekk. Sjá nánar á vef umhverfissviðs.

Frítt í strætó?
 Strætó góður kostur í þungfærðinni
(17.1.2006)
 
Ég byrjaði daginn eins og góðra húsbónda er siður og gerði hreint fyrir mínum dyrum, þ.e. mokaði snjóinn frá dyrunum svo heimilisfólkið þyrfti ekki að ösla skaflana. Þá tók ég eftir að tveir grannar mínir voru að puða við koma smábílum sínum út af bílaplaninu sem varla var fært nema fjórhjóladrifnum tækjum. Ég hugsaði með mér að nú ætti þetta góða fólk að taka strætó, en með aðstoð minni og lagni bílstóranna tókst þó að koma bílunum út á greiðari götur. Svo verður planið mokað í dag.
      Já, strætó er góður kostur í svona færð, sem endranær. Málefni strætó hafa ítrekað verið til umfjöllunar, m.a. í umhverfisráði þar sem ég á sæti. Það er yfirlýst stefna að auka hlut almenningssamgangna í borginni, þar sem það er bæði hagkvæmara fyrir alla og umhverfisvænna. En einkabíllinn er þægilegur þótt hann sé aðeins dýrari.
      Fáeinir einstaklingar í prófkjörsbaráttu tiltekinna flokka hafa lagt til að það verið ókeypis í strætó. Slíkt myndi kosta borgina nokkur hundruð milljónir króna á ári. Umhverfisráð ákvað í gær að skoða þennan kost. Nú verðum við að hafa í huga að byggðasamlagið Strætó er rekið af fleirum en Reykjavík og það verður að nást samstaða í stjórn Strætó um gjaldskrármál og fleira. En þar sem umhverfisráð borgarinnar fer með samgöngu- og umhverfismál lætur það þessi mál til sín taka.
      Varðandi gjöld fyrir almenningssamgöngur er rétt að líta til þess hvernig reynslan hefur verið erlendis þar sem þetta hefur verið reynt. Niðurstaðan af gjaldfrelsi virðist ekki vera upplífgandi miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja. Einhverjar upplýsingar benda til að gjaldfrelsi breyti ekki miklu um ferðatilhögun fullorðinna, í einu tilviki varð helsta breytingin sú að börn hoppuðu upp í strætó stutta vegalengd í skólann þar sem þau höfðu annars gengið og niðurstaðan varð aukið hreyfingarleysi barna. En það er sjálfsagt að skoða þessi mál betur – og það ætlar umhverfisráð borgarinnar að gera. Ég held að einna forvitnilegast yrði að skoða hér í borg hvaða áhrif þetta hefði á ferðamáta unglinga í framhaldsskólum. Þeir nota margir hverjir strætó, en mjög margir fara á einkabílum. Hvað segja unglingarnir?

Samgöngustefna til umræðu (16.1.2006)
Á fundi umhverfisráðs í dag er samgöngustefna til umræðu. Það er umhugsunarefni að um helmingur af borgarlandinu fer undir umferðarmannvirki og tengd svæði, enda bílaeign meira í líkingu við bandarískar en evrópskar borgir. Mengun frá umferðinni hefur aukist í takt við aukna bílaeign og aukna umferð. Og á sama tíma og kostnaður vegna umferðar og umferðarmannvirkja eykst þá verða okkur settar strangari skorður vegna samþykkta um loftmengun frá Evrópusambandinu. Við verðum því að bregðast við. Í drögum að samgöngustefnu er bent á ýmsar athyglisverðar leiðir sem vert er að skoða. Þar er tekið á flestum hliðum samgangna, s.s. göngu, hjólreiðum, almenningssamgöngum og einkabílum. Umræðan snertir umhverfi, heilsu og borgarbrag - og til að bæta þetta þrennt þarf að miðla upplýsingum um þróun mála í ríkum mæli og fá fólk til að skilja að bregðast þurfi á jákvæðan hátt við afleiðingum aukinnar umferðar. Þetta er ekki spurning um að leggja einkabílnum og senda alla í strætó - heldur fyrst og fremst að breyta vissum áherslum og hegðunarmynstri. Nánar um þetta síðar.

Öflugra atvinnulíf - bætt vinnuumhverfi! (16.1.2006)
Í íslensku atvinnulífi eru mörg öflug fyrirtæki, stór og smá. Þau þurfa að standast samkeppni innanlands og jafnframt við erlend fyrirtæki í mörgum tilvikum. Samkeppnin hefur aukist og því fylgja bæði kostir og gallar. Virkni og hagkvæmni eykst, en að sama skapi eykst harkan á vinnumarkaði gagnvart starfsfólki á ýmsa lund. Fyrirtæki hafa reynt að losa sig við fólk með hraði þegar þeim hentar. Þetta er áhyggjuefni, sérstaklega þegar þessi (ó)siður breiðist út um samfélagið. Vinnuumhvefið verður fyrir vikið ekki eins heilsusamlegt. Við því þarf náttúrulega að bregðast...

 Samfylkingin í stórsókn! (12.1.2006)
Samfylkingin sækir verulega í sig veðrið og Sjálfstæðisflokkurinn dalar nokkuð ef marka má niðurstöðu könnunar sem Frjáls verslun gerði fyrir vefsvæðið heimur.is dagana 5.-11. þessa mánaðar. Samfylkingin eykur við sig fylgi um 6 prósentur, eða úr 31% í 37% frá könnun sem gerð var í nóvember sl. Sjálfstæðisflokkurinn fengi um 50%, en í ljósi þess að stór hluti Reykjavíkurlistakjósenda er óákveðinn ályktar heimur.is að mestur hluti þeirra muni styðja Samfylkinguna eða aðra flokka í Reykjavíkurlistanum. Þar með þrengist að íhaldinu. Vinstri grænir fengju um 10% en Framsókn og Frjálslyndir um 1-2%.
     Þessi könnun sýnir að fylgið er að færast til okkar, enda er líf og fjör í Samfylkingunni. Við munum fylgja þessu eftir og stefnum ótrauð að því að vera nálægt meirihlutanum í vor. (Sjá nánar á heimur.is)

Stuðningur við framboðið (12.1.2006)
Það er gaman að geta greint frá því að margir telja að ég eigi erindi í borgarstjórn. Ég hef verið hvattur til að bjóða mig fram, enda öðlast nokkra reynslu sem varamaður í borgarstjórn og í nefndastörfum, og verið hvattur til dáða í þeirri prófkjörsbaráttu sem er framundan. Eins og ég hef áður sagt í þessum pistlum, þá ætlum við í Samfylkingunni að hafa þetta skemmtilegt prófkjör þar sem mest er um vert að ná góðum árangri fyrir flokkinn í heild. Og það mun nást með samstilltu átaki okkar allra. (Sjá nánar)

Jafnréttið er lykilatriði (12.1.2006)
Jafnrétti og réttlæti eru lykilatriði í stefnu Samfylkingarinnar. Viðamesta jafnréttisverkefnið er enn sem fyrr að tryggja jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna, en jafnframt þarf vinna í jafnréttismálum að miða í miklu meiri mæli en áður að því að bæta stöðu ýmissa hópa, svo sem fatlaðra, fólks af erlendum uppruna og samkynhneigðra. Reykjavíkurborg má ekki mismuna neinum, heldur verður hún að vinna að jafnri stöðu allra án tillits til uppruna, kynferðis eða mismunandi uppleggs fólks að öðru leyti. Um þetta hefur verið rætt og að þessu hefur verið unnið í jafnréttisnefnd borgarinnar þar sem ég hef átt sæti. Sjá nánari umfjöllun í ræðu sem ég flutti á fundi Stígamóta í haust og í grein á vef Samfylkingarinnar fyrir nokkru um þróun jafnréttisbaráttunnar.


Uppsláttur DV skaðar alla (12.1.2006)
Það þarf ekki að hafa mörg orð um þau alvarlegu mistök sem ritstjórn DV gerði með óvæginni umfjöllun sinni um mann sem blaðið sagði grunaðan um tiltekna hegðun. Með uppslætti sínum, nafn- og myndbirtingu tók blaðið sér mikið vald og tengdi manninn við atburð eða atburði sem ósannaðir eru. Hinar hörmulegu afleiðingar eru öllum kunnar. Eftir sitja vinir, kunningar og ættingjar í sorg.
     DV sniðgengur viljandi siðareglur samtaka blaða- og fréttamanna hér á landi. Blaðið telur sig vera að segja sannleikann og setur sig þar með í æðra sæti en dómstóla landsins. Það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnar og eigenda blaðsins á föstudag.
     Þetta mál fjallar ekki lengur um meint brot. Ritstjóri blaðsins segist bera hagsmuni þeirra fyrir brjósti sem hann segir meint brot hafa bitnað á. En ætli blaðið hafi ekki með uppslætti sínum sem hratt þessum voðaatburði af stað skaðað fleiri en þann sem það fjallaði um og ættingja hans? Blaðið hefur vafalítið með þessum uppslætti skaðað alla sem hlut eiga að máli og það er ekki ólíklegt að ýmsir sem myndu vilja skýra frá meintum brotum sem beinst hafa gegn þeim hættu við slík áform þegar þeir sjá að það gæti haft í för með sér afleiðingar og umrót af þessu tagi. Þannig að það má efast um að uppsláttarform frétta DV þjóni einhverjum öðrum hagsmunum en tengjast blaðinu sjálfu.


Fjörlegur fundur um menningarmál:
       -  Lifir Jónas frá Hriflu á meðal vor?
(11.1.2006)
Það var fjörlegur fundur sem framtíðarhópur Samfylkingarinnar hélt á Hallveigarstíg í gærkvöldi. Umræðuefnið var Virkjum menninguna! Umræða um skapandi atvinnugreinar. Fyrir fundinum lá skýrsla hóps um málið sem kynnt hafði verið á vef flokksins og leitað viðbragða. Og það má segja framtíðarhópnum það til hróss að viðbrögðin létu ekki á sér standa. Það hafði greinilega tekist að kveikja almennilega í mannskapnum og umræður voru fjörlegar og sveifluðust frá þjóðernisstefnu Jónasar frá Hriflu, til alþjóðahyggju, og rætt var um hættuna á því að auðvaldið gleypti listina. Var á einum fundarmanni að skilja að honum fyndist að einhverjir gerðu sér ekki grein fyrir því að Jónas frá Hriflu væri dauður! Fleri ummæli féllu af líku tagi. Á þessu sést að það er líf í menningarumræðunni í Samfylkingunni.

Skýrsla framtíðarhópsins er afurð nokkurrar vinnu og í henni eru þarflegar vangaveltur um stöðu menningar og lista. Í niðurstöðum hópsins kemur fram eftirfarandi:

 „Hópurinn ræddi talsvert um önnur sjónarmið en þau sem hér eru reifuð, þ.á m. um þjóðmenningu, menningarvernd og list listarinnar vegna ... Við vorum algerlega samstíga í að hafna þessum sjónarmiðum sem lykilstefjum í menningarstefnu fyrir 21. öldina. ... við erum sannfærð um að framtíðarstefna í menningarmálum verði að grundvallast á alþjóðahyggju, margbreytileika, samfélagslegri skírskotun listar og mikilvægi hennar fyrir atvinnu og efnahag. Menning er fallvatn sem á að virkja, ekki tjörn sem þarf að vernda.“ 

Það var talsvert rætt um hlut alþjóðahyggju og þjóðmenningar. Inn í það blandaðist umræða um stöðu og stefnu varðandi íslenska tungu,  um tengsl menningar og markaðsstarfsemi og um frelsi listamannsins. Tveir einstaklingar höfðu tekið sig til fyrir fundinn og skrifað nýtt plagg um efnið, auk þess að aðrir gerðu nokkrar athugasemdir. Í skýrslu sem Mörður Árnason og Gísli Sigurðsson lögðu inn í umræðuna kom m.a. fram:

„Aðalatriði í stefnu stjórnmálaflokks og framtíðarsýnar um menningu og listir ættu að vera að tryggja að almannafé verði áfram veitt til menningar- og listastarfsemi í landinu, hvort sem hún er á opinberum vegum að rekstri til eða ekki. Þar verður að gæta sérstaklega að þjóðlegum skyldum okkar annarsvegar og hlú hinsvegar sem best að nýgræðingi og tilraunamennsku.“

 Og viðbrögð Njarðar P. Njarðvík um skýrslu framtíðarhópsins voru m.a. þessi í greinargerð sem hann skilaði: 

„Þar kemur líka fram alltof mikil markaðshyggja að mínum dómi, of mikil tengsl listsköpunar og „efnahagslegra verðmæta“ ...... Þar fyrir utan er svo stagast á „þjóðernissinnaðri einangrunarstefnu“ sem er auðvitað fjarri því að setja svip sinn á íslenskt menningarlíf á okkar dögum, og fráleitt að líta á íslenska listsköpun sem dæmi um þjóðrembu. Menn verða ekki heimsborgarar með því að glata uppruna sínum. Alþjóðleg manneskja er ekki til og alþjóðleg listsköpun ekki heldur. ....... Það eru hin ósviknu sérkenni upprunans sem skírskota til heimsins, í stað alþjóðlegs svipleysis. ... Thor Vilhjálmsson, Fríða Á. Sigurðardóttir og Sjón hafa fengið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir mjög svo séríslenskar sögur. Sigurrós fer sigurför um heiminn með séríslenska tónlist. Björk fer sínu fram og heldur fast við persónuleg sérkenni sín. .... Ekkert af þessu á neitt skylt við einangrunarstefnu eða þjóðrembu. ... Á okkar tímum má ef til vill segja að ekkert sé í rauninni alþjóðlegt nema peningar.“ 

Í samantekt eftir fundinn sagði einn fundarboðanda að það væri greinilegt að hér þyrfti að skoða málin betur og samþætta þau sjónarmið sem fram hefðu komið. Ég hygg að margir bíði spenntir eftir því að sjá hvert verður framhald málsins.

Sjá nánar um skýrslurnar á vef framtíðarhópsins.
 

Atvinna og velferð –
                     – höfuðborgin skiptir höfuðmáli
(10.1.2006)

Reykjavík hefur mjög veigamiklu hlutverki að gegna í atvinnu- og verðmætasköpun hér á landi. Sem höfuðborg, stærsta sveitarfélagið og helsti tengiliður landsmanna við útlönd er hún framvörður í þróun ýmissa atvinnutækifæra, menntun, listum, fjármálum og stjórnsýslu. Skipulag borgarinnar þarf að taka mið af þessu. Miklir möguleikar felast í framtíðarskipulagi Vatnsmýrarinnar, þar sem tengjast saman menntun á æðstu stigum, nýtískuleg sjúkrahússtarfsemi fyrir alla landsmenn og ýmis sprotastarfsemi sem fellur vel að þessu umhverfi.

Ferðaþjónustan hefur vaxið hröðum skrefum hér á landi og þar gegnir höfuðborgin lykilhlutverki, því nær allir ferðamenn koma til borgarinnar í skemmri eða lengri tíma. Mikil fjölgun hótelrýma, veitingahúsa og afþreyingarstarfsemi skiptir hér sköpum, og án efa verður bygging nýs tónlistar- og ráðstefnuhúss sú lyftistöng sem kemur okkur í fremstu röð í heiminum á þessu sviði.

Hér er að byggjast upp vísir að sérhæfðri atvinnustarfsemi á ýmsum svæðum. Verslunarkjarnar eru í miðbæ, Kringlu og á nokkrum öðrum stöðum, fjármálageirinn er nálægt miðbæ og í Borgartúni, fiskiðnaðurinn að mestu við höfnina og þyngri iðnaður er að færast fjær miðbænum og helstu íbúðarhverfum. Það er mikilvægt að finna þeim iðnaðarfyrirtækjum sem þurfa mikið athafnarými framtíðarstaðsetningu sem fyrst. Það þrengir að þeim sumum hverjum austan Elliðaárósa. Það liggur beinast við að þeim verði fundinn staður á Álfsnesi eða enn norðar, því með sameiningu hafnarmannvirkja á stór-höfuðborgarsvæðinu gefst betra færi á að skipuleggja til lengri framtíðar með hagsmuni alls svæðisins frá Borgarnesi að Árborg í huga.

            Við eigum alla möguleika á að þróa hér áfram kraftmikla byggð með fjölskrúðugu atvinnulífi sem skapar góða velferð fyrir alla.


Umhverfisáætlun endurskoðuð –
                     – í samráði við borgarbúa
(9.1.2006)

Umhverfisáætlun Reykjavíkur hefur verið í endurskoðun. Í vor komu saman ýmsir hópar áhugafólks og ræddu um það sem betur mætti fara í umhverfis- og heilbrigðismálum. Næsti áfangi í endurskðun umhverfisáætlunarinnar hefst í dag með því að leitað verður eftir viðbrögðum allra borgarbúa, en það er gert með eins lýðræðislegum hætti og unnt er, þ.e. gegnum í netið, síma og með pósti. Þetta eru að sönnu nýstárleg vinnubrögð hér á landi og verður spennandi að fylgjast með því hvað borgarbúar hafa að segja um málið. Ég átti þess kost að taka þátt í þeim áfanga sem fór fram í vor, og það vakti athygli mína að það virtist vera mikill samhljómur með skoðunum fólks, hvaðan sem það kom, um hvað væru brýnustu málin til að taka á. Eitt af því var loftmengun frá umferð og annað var of mikið hreyfingarleysi almennings. Hægt er að fræðast nánar um þennan lýðræðislega lokaáfanga í endurskoðun umhverfisáætlunar með því að fara á sérstaka síðu á vef umhverfissviðs borgarinnar:
Sjá hér

Klippt og skorið um strætó í fréttum –
                     – Strætó er samt góður kostur!
(7.1.2006)

Ég frétti af því að útvarpið hefði í gær sagt frá síðasta fundi umhverfisráðs Reykjavíkurborgar. Miðað við það sem ég sá á vef Ríkisútvarpsins var í fréttinni týnt út úr nokkrum bókunum á fundinum það sem fréttnæmt þótti. Það er ósköp eðlilegt, enda er það hlutverk fréttamannsins að tína til og vinna helstfréttir úr alls kyns efni sem honum berst. Það þekki ég sjálfur úr störfum mínum fyrir fjölmiðla.

En það kom ýmislegt fleira fram í bókun okkar Árna Þórs Sigurðssonar, formanns umhverfisráðs, en greint var frá í útvarpsfréttum, en þar var haft eftir okkur að vandséð væri að nýleg ákvörðun stjórnar Strætó bs. um gjaldskrárhækkanir væri til þess fallin að fjölga farþegum. Okkar bókun kom í kjölfar nokkuð harðorðra bókana annarra á fundinum. Í bókun minni og Árna var undirstrikað að Strætó er að bregðast vel við óskum farþega og bæta við og breyta leiðum. Þessar breytingar eiga sér einkum stað á nokkrum leiðum í austurhverfum borgarinnar. Jafnframt kom fram í bókuninni, eins og framkvæmdastjóri Strætó bs. hefur haldið fram, að verðhækkun á fargjöldum væri í heildina tekið nokkurn veginn í samræmi við almennar verðbreytingar frá því að síðustu fargjaldabreytingar áttu sér stað og að þær leiddu ekki til aukinna rauntekna fyrir Strætó.

Það eru markmið Strætó bs. og Reykjavíkurborgar að fjölga farþegum. Rekstur fyrirtækisins er að ýmsu leyti bundinn af samkomulagi á milli borgarinnar og nágrannasveitarfélaganna. Tekjur fyrirtækisins af fargjöldum eru í heild um 800 milljónir króna. Bein framlög sveitarfélaganna nema ennfremur mörg hundruð milljónum króna og þá kemur að sjálfsögðu mest úr sameiginlegum sjóðum Reykvíkinga. Nefna má að Reykjavíkurborg leggur til aukið fé vegna þeirra breytinga sem eiga sér stað hjá Strætó bs. í borginni. Það segir sig auðvitað sjálft að gjaldskrárhækkun er ekki til þess fallin að fjölga farþegum, eins og sagði í einni setningu í bókun okkar Árna, en ef kostnaður í rekstri fyrirtækisins vex vegna verðlagsbreytinga þarf væntanlega að bregðast við því. Nágrannasveitarfélögin hafa verið nokkuð hörð á því að auka ekki framlög til strætisvagnanna. Stjórn fyrirtækisins var því í vanda. Ef til vill hefði verið heppilegra að leyfa betri reynslu að koma á nýtt kerfi áður en verðinu var breytt. En þetta var niðurstaða stjórnar Strætó sem í sitja fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og áður hefur komið fram á þessum vef þá tel ég Strætó góðan kost fyrir fjölmarga. Það þekki ég af eigin raun og frá fólki í kringum mig. Flestar fjölförnustu leiðirnar eru mjög greiðar og sá forgangur sem Strætó hefur fengið í umferðinni, svo sem á hluta Miklubrautar, hefur reynst mjög vel. Ég tel því að fyrirtækið eigi alla möguleika til að vaxa og dafna. Við verðum að hafa það hugfast að viss fjöldi borgarbúa ferðast eingöngu með almenningsvögnum. Þetta er fólk af öllu tagi, þótt ungt fólk sé þar að stórum hluta. Það að farþegum Strætó skuli ekki fjölga má miklu fremur rekja til aukins kaupmáttar í landinu og gífurlegrar fjölgunar einkabíla en til breytinga á leiðum strætó.

Forvarnastefna Reykjavíkur kynnt (6.1.2006)
Í dag var forvarnastefna Reykjavíkur kynnt við sérstaka athöfn hjá Velferðarsviði borgarinnar. Hún er viðamikil og felur í sér útfærð markmið fyrir ýmsa aldurshópa. Jafnframt hefur hún tiltölulega vítt sjónarhorn og tekur á ýmsum almennum markmiðum sem eru góð og gild í daglegu lífi og starfi. Í inngangi að stefnunni kemur fram að forvarnastefnan taki til barna og ungmenna frá fæðingu til tvítugs, foreldra og allra sem að málefnum þeirra og uppeldi koma. Lögð er áhersla á að forvarnir hefjist strax í barnæsku og stefnan byggir á traustum rannsóknum. Nánar verður fjallað um þetta á þessum vettvangi síðar. Af þessu tilefni langar mig að koma að orðum mikils hugsuðar og reynslubolta í þessum efnum sem sagði: „Þegar til lengdar lætur er eitt mikilvægasta forvarnastarfið að draga úr aðgengi unglinga að áfengi og öðrum vímuefnum. Auglýsingar framleiðenda og innflytjenda virka á sama hátt og aukið aðgengi. Við því þarf að bregaðst.“

Skipulag byggðarinnar á að þjóna íbúunum öllum! (6.1.2006)
Á síðustu árum hefur verið byggt húsnæði með mesta móti í Reykjavík. Lögð hefur verið áhersla á að þétta byggðina eftir föngum, enda er það hagkvæmara fyrir borgarbúa og umhverfisvænna. Með því nýtast allar lagnir og samgönguæðar betur. Af 5.150 fullgerðum íbúðum í Reykjavík á árunum 1996-2004, voru 2.025 utan nýbyggingarsvæða. Á þessu sést að Reykjavíkurlistinn hefur nýtt borgarlandið á skynsaman hátt. Samfylkingin mun fylgja þessari stefnu.

Fjölbreytni
Við þurfum að þróa áfram fjölbreytta byggð í hverfum borgarinnar þar sem hver og einn getur fengið búsetu við hæfi. Jafnframt þarf að tryggja áfram gott aðgengi að grænum svæðum og útivistarsvæðum, s.s. í Öskjuhlíð, Laugardal, Elliðaárdal, auk minni grænna svæða.

Samfélög í hverfum
Þótt mikilvægt sé að þétta byggð þarf auðvitað að þróa ný hverfi eftir þörfum, en gæta jafnframt að þeim samfélagslega kostnaði sem nýjum hverfum fylgir, s.s. vegna samgöngumála. Best væri ef í hverfunum væri einnig atvinnustarfsemi og afþreyingarstarfsemi, auk skóla og ýmissar þjónustu, til þess að draga úr þörfinni fyrir dýr og plássfrek samgöngumannvirki. Nýtt hverfi í Vatnsmýrinni ætti hæglega að geta verið að mestu í þessa veru.

Stöldrum við!
Samgöngur þarf að skipuleggja þannig að fólk komist ferða sinna til og frá vinnu, skóla, verslana eða annarri þjónustu á tiltölulega skömmum tíma.
Meginumferðarleiðir þurfa að vera greiðar, en í íbúðarhverfum þarf að taka sérstakt tillit til gangandi umferðar barna og annarra. Góðar almenningssamgöngur þurfa að vera til staðar og þær eiga að vera raunhæfur valkostur fyrir alla. Auk þess eru þær samfélagslega hagkvæmar og umhverfisvænar. Reynsla mín er sú að hægt sé að komast flestar bæjarleiðir á tiltölulega skömmum tíma hvort sem notaður er einkabíll eða strætó, þótt vitaskuld geti síðari kosturinn verið eitthvað tímafrekari. Uppspænt malbik í tonnatali árlega og svifryksmettaðar vetrarstillur ættu þó að hvetja okkur til að nota eyðslugrennri bíla, minna af nagladekkjum og fara oftar í strætó, eða jafnvel ganga eða hjóla ef svo ber undir.

Slysum fækkar
Það er mjög ánægjulegt að umferðaröryggi hefur batnað í Reykjavík á undanförnum árum, enda mikið verið lagt í að hægja á umferð í íbúðarhverfum og tryggja öryggi gangandi vegfarenda.
Þannig hefur verið hægt að fækka slysum á börnum og öðrum vegfarendum.

Það sem fram kemur hér að ofan tengist áherslumálum sem nánar eru útskýrð annars staðar á heimasíðunni.

Eflum velferðina og jöfnum kjörin! (4.1.2006)
Nýlegar upplýsingar um ofurlaun stjórnenda fyrirtækja og stofnana vekja furðu margra. Víst er að velferð flestra stjórnenda er í góðu lagi, en fjölmargir aðrir hafa litlar tekjur og þurfa að reiða sig á aðstoð hins opinbera til þess að geta lifað sómasamlegu lífi. Í þeim hópi er fjöldi barna og aldraðra. Til að efla hina almennu velferð er mest um vert að bæta kjör þessa hóps.

Laun eru að jafnaði ákveðin í kjarasamningum, en önnur kjör einkum með ákvörðunum um opinbera þjónustu. Ofurlaunahóparnir ættu nú að hafa aukið svigrúm til þess að leggja aukinn skerf til sameiginlegrar þjónustu opinberra aðila.

Margs konar þjónusta
Nú fá um fimmtán þúsund fjölskyldur á ári ýmsa þjónustu hjá borginni; margir aldraðir fá þrif og mat sendan heim, hinir tekjuminnstu fá fjárhagsstuðning, margir fá húsnæðisaðstoð með útleigu íbúða og húsaleigubótum og fjölmargar fjölskyldur fá félagslegan stuðning af ýmsu tagi. Útgjöld til velferðarmála í Reykjavík í ár eru áætluð um 7 milljarðar króna, eða um 15 prósent af útgjöldum borgarinnar. Ýmsum finnst sjálfsagt að það séu talsverðir fjármunir, en þeim er vel varið.

Öldrunarþjónusta
Rekstur hjúkrunarheimila er háður samþykki heilbrigðisráðuneytis og ríkisstjórnar, þótt sveitarfélög og fleiri komi að byggingu heimilanna. Það þarf að byggja fleiri hjúkrunarheimili í borginni, en það stendur til bóta með smíði 110 rýma heimilis, auk viðbygginga við önnur heimili og samstarfs við önnur sveitarfélög um nýsmíði. Jafnframt þarf að efla heimaþjónustuna og halda áfram að sameina eða samþætta heimahjúkrun og heimaaðstoð. Fylgja þarf eftir samþykktum og áformum til þess að bæta velferð aldraðra. Þar er sem stendur einna brýnast að hefja framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili.

Styðjum börnin
Annað brýnt verkefni er að bæta stöðu tiltekinna hópa barna sem búa við erfiðar aðstæður. Nýlega var ákveðið að efla barnaverndina í Reykjavík til að bregðast við vaxandi fjölda tilvika um misnotkun og vanrækslu. Jafnvel burtséð frá þessum hörmungum er ljóst að börn standa ekki jafnfætis á upphafsskeiði lífsins og við því þarf að bregðast. Þess vegna hefur velferðarráð lagt á það áherslu að sinna þeim hópi sem býr við hvað verstar aðstæður. Liður í því er m.a. að aðstoða forsjárlausa feður, því það barn sem hefur aðeins eitt foreldri er fátækara en hitt sem hefur bæði. Hér þarf þó að gera enn betur.

Þriðja verkefnið sem tekist hefur mjög vel eru sérstakir menntunarstyrkir sem veittir hafa verið ungu fólki, oft ungum einstæðum mæðrum, til þess að ljúka framhaldsskólanámi. Þessi menntunarþáttur velferðarþjónustunnar er gífurlega mikilvægur.

Það er með áherslum af þessu tagi sem velferðin verður best efld. Ofurlaun forstjóra særa réttlætiskennd fólks og vekja upp úlfúð. Við því þarf að bregðast, en velferðin verður þó ekki bætt nema með því að bæta verulega stöðu þeirra verst settu. Um það þurfa ríki og sveitarfélög að sameinast.

Karnivalsstemning í Samfylkingunni! (3.1.2006)
Nú hefur Björk Vilhelmsdóttir ákveðið að ganga til liðs við Samfylkinguna og taka þátt í prófkjöri með okkur í byrjun næsta mánaðar. Hún er góður liðsauki og sést á þessu, ásamt framboði Dags B. Eggertssonar, að straumurinn liggur til Samfylkingarinnar. Þetta sýnir að starf samfylkingarfólks að undanförnu er að skila sér því fólk treystir á að skipulag og málefnastarf flokksins muni skila miklum árangri í vor. Við erum opinn og lýðræðislegur flokkur og tökum öllum opnum örmum. Og - eins og ég sagði í pistli hér 25. nóvember: Það eiga fleiri eftir að koma til liðs við okkur. Við ætlum að hafa þetta skemmtilegt prófkjör. Ég nefndi áður að þetta yrði eins og fjölskylduganga eða skemmtiskokk, þar sem örfáir tækju sprett í lokin. En mér finnst reyndar nú að stemningin sé farin að minna á karnival í suður-amerískum stíl, því við í Samfylkingunni erum kát og hress. Það eru framúrskarandi frambjóðendur sem keppa ákveðið um fyrsta sætið og svo komum við hin á eftir í miklu systra- og bræðralagi og tökum góðan leik um sætin sem á eftir koma.

Áramótaræða forsetans (2.1.2006) 
Eins og flestir landsmenn hlusta ég af athygli á áramótaræðu forsetans. Ég var ánægður með að heyra það sem hann sagði um stöðu eldri borgara, einkum þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Það þarf að bæta stöðu þeirra, eins og ég hef reyndar lagt áherslu á við ýmis tækifæri. Um þetta hef ég ritað, m.a. hér á heimasíðunni, undir málefni:

„Öldrunarþjónusta er mjög aðþrengd á Íslandi í dag. Það á ekki hvað síst við um hjúkrunarheimili sem fá rekstrarframlag frá ríkinu sem í fæstum tilfellum duga til að standa fyllilega undir þeirri þjónustu sem til er ætlast. Enn er nokkur skortur á hjúkrunarrýmum, einkum á suðvesturhorni landsins. Í öðrum landshlutum hefur málið stundum verið leyst með því að breyta öðrum hjúkrunarstofnunum í hjúkrunarheimili. Nú hefur verið gert samkomulag um byggingu hjúkrunarheimilis í austurbæ Reykjavíkur með 110 rýmum sem mun leysa vanda margra. Auk þess stefna Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesbær að smíði hjúkrunarheimilis í vesturbænum. Þar með leysist ýmislegt fyrir þann hóp sem er í brýnustu þörfinni fyrir stofnanavistun. En jafnframt hefur verið unnið markvisst að því að finna lausnir fyrir þann hóp aldraðra og sjúkra sem kýs að búa heima. Samþætting heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu er liður í því starfi. Að því er áfram unnið og mikilvægt að efla þann þátt verulega.“

Flugeldafjör og sprengjulæti (30.12.2005)
Undirbúningur áramótanna virðist ætla að verða með hefðbundnu sniði. Flugeldarnir kæta krakka, jafnt sem marga fullorðna. Einhverjir voru með vangaveltur um óhollustu vegna reykmengunar frá flugeldunum, en nú hafa sérfræðingar á umhverfissviði borgarinnar staðfest að þetta sé svo stutt sprengjutímabil að svifrykið nái varla hættumörkum. Enda er ég búinn að tryggja mér flugelda og skotkökur að vanda. Ég styrki íþróttafélagið í hverfinu mínu sem var með frábæra flugeldasýningu í kvöld eins og venja hefur verið á þessum degi síðustu árin - öll árin eftir að ég flutti í hverfið og sjálfsagt áratug þar á undan. Þannig að ég verð til í tuskið annað kvöld!

Það er reyndar verst með hundinn okkar. Hann er ekkert sérlega hrifinn af þessum látum, þótt hann sé reyndar ekkert sérstaklega stressaður heldur. Sjálfsagt verður maður að gera einhverjar ráðstafanir með hann, greyið. Ég sá á sænskum netmiðli að Svíar reyna ýmsar leiðir til að róa dýrin, meðal annars að troða bómull upp í eyrun á hvuttunum sínum. Ég veit ekki hvort ég legg í það, en það væri svo sem nógu fróðlegt að prófa og sjá til..... 

Úr fréttum vikunnar - um samskipti, einsemd og fíkniefnafjötra (29.12.2005)
Eftir ánægjulega jólahelgi í faðmi fjölskyldunnar kippist maður ónotalega við þegar  fyrirsagnir sumra dagblaðanna blasa við. Þar er fjallað um einmana og gamalt fólk sem er í litlum tengslum við annað fólk og um neytendur fíkniefna sem látast um aldur fram. Spurningin er hversu mikil mein þetta eru í íslensku samfélagi.

 Það vekur upp vonda tilfinningu hjá flestum þegar fréttir berast af því að fólk hafi fundist eftir að hafa legið látið í langan tíma. Nágrönnum líður ekki vel eftir að slík atvik hafa komið upp enda viljum helst ekki að hlutirnir gerist þannig. Við viljum flest eiga í eðlilegum og tíðum samskiptum við okkar nánustu, nágranna og annað fólk, koma öðrum til hjálpar þegar á þarf að halda og þiggja hjálp þegar við þurfum. Stundum bregðumst við þessari samfélagslegu skyldu okkar. Samhygðin klikkar stundum, en sem betur fer ekki oft.

 Á hinn bóginn eru líka til einstaklingar sem vilja eiga í takmörkuðum eða helst engum samskiptum við aðra, jafnvel ekki eigin fjölskyldu. Það ber auðvitað að virða, en þó aðeins að vissu marki, ekki síst þegar um aldraða eða sjúka einstaklinga er að ræða. Því þótt við viljum ekki vera of uppáþrengjandi og viljum veita fólki frelsi og svigrúm, þá þurfum við að fylgjast með þeim sem næst okkur standa og rétta þeim hjálparhönd eftir mætti. Þótt hér virðist kannski ekki vera um stórt samfélagslegt vandamál að ræða, þá er mjög eðlilegt að velferðarsvið borgarinnar bregðist við í þessu máli eins og boðað hefur verið.

Það má líta með svipuðu móti á fíkniefnavandann, þótt hann sé án efa mun stærra samfélagsmein en það sem að ofan er nefnt. Fíkniefnaheimurinn sýnir okkur hvaða áhrif efnin hafa á manninn líkamlega og sálrænt, hann sýnir hvaða áhrif þau hafa á samskipti einstaklinga í fjölskyldum og annars staðar í samfélaginu og hann sýnir okkur hversu langt fólk er tilbúið til að ganga til að fullnægja tilfallandi þörfum eftir fíkniefnum. Þess vegna eru fíkniefni mein sem sýkja eðlileg samskipti í samfélaginu. Fréttir um ótímabæran dauða einstaklinga eru aðeins eins og toppur á ísjaka. Manni finnst reyndar ótrúlegt að á annað hundrað einstaklinga hafi látist nú þegar á þessu ári af þessum völdum, eins og haldið hefur verið fram. Mér verður hugsað til orða læknisins á Flateyri sem vildi verja hluta af söluandvirði Símans í baráttuna gegn fíkniefnunum. Ennfremur koma í hugann fréttir úr stórum og smáum byggðarlögum um vandasöm verkefni lögreglu og félagsmálayfirvalda í þessum efnum. Einnig minnist ég fullyrðinga um að þessi heimur sé að verða harðari og að þeir sem á annað borð ánetjast fíkninni séu nú í verri málum en áður.

Þessa umræðu þarf að tengja annarri forvarnaumræðu, þ.e. gegn almennum reykingum og misnotkun áfengis, vegna þess að langflestir sem byrja á fíkniefnum fikta fyrst við tóbak og áfengi. Þess vegna er því haldið fram að því færri börn og unglingar sem fikta við slíkt – og því seinna sem þau byrja á því, því minni verður oftast vandinn fyrir þau og fyrir samfélagið í heild. Nú er tekið af talsverðri festu víða á tóbaksmálunum vegna þess m.a. að óbeinar reykingar skaða. Reykingamálin eru ekki bara spurning um frelsi manna til að reykja heldur líka spurning um samfélagsleg áhrif reykinganna, þ.e. á heilsu annarra, auk ýmiss kostnaðar sem reykingum fylgja. Það má líta með svipuðu móti á áfengismálin. Þótt drykkja flestra sé innan viðurkenndra samfélagslegra norma þá er hún það ekki í mörgum tilfellum. Drykkja veldur oft ekki aðeins þeim sem drekkur skaða, heldur einnig fjölskyldu hans og öðrum einstaklingum. Þessu fylgir einnig sóun á hæfileikum og verðmætum af ýmsu tagi. Því er þetta samfélagslegt mál sem taka þarf á með sameiginlegu  átaki. Öllum breytingum á þessum málum fylgir áhætta. Umræða um breytingar á sölufyrirkomulagi áfengis getur líka haft sín áhrif. Þannig kom það mér talsvert á óvart þegar foreldrar tjáðu mér að umræða og tillögur um lækkun á áfengiskaupaaldri hefði ýtt undir áfengisneyslu unglinga og ungs fólks, því unga fólkið sagði að það fengi hvort eð er að kaupa áfengi fljótlega. Þess vegna væri allt í lagi að byrja strax. Á sama hátt getur umræða um að lögleiða eigi fíkniefni komið því inn hjá ungu fólki að neysla þeirra þurfi ekki að vera neitt hættuleg. Auðvitað þarf að ræða þessi mál, en slæmt væri ef helsti árangurinn yrði aukinn gróði þeirra sem framleiða og selja þessi efni, hvaða nafni sem þau nefnast, og aukin neysla og aukinn vandi einstaklinga sem neyta efnanna.

Umræðan um fíkniefnamálin leiðir hugann að forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar sem unnið hefur verið að. Þar er reynt að skoða málin í aðeins víðara samhengi en áður hefur verið gert og reynt að líta til uppsprettu vandans, sem ofar en ekki á rætur í samskiptum manna á meðal sem gætu verið betri. Þótt lögreglan gómi við og við stórtæka innflytjendur, framleiðendur og sölumenn „dauðans“, þá virðist það ekki draga að marki úr vandanum og enn raka einhverjir saman ólöglegum og óhóflegum fíkniefnagróða þar sem eftirspurnin er fyrir hendi. Þess vegna hlýtur meginmálið að vera að finna leiðir til að draga úr eftirspurninni. Ef ein leið til þess er að finna fólki eitthvað heppilegt að gera og fylla líf fólks með innihaldsríkum samskiptum sem bægja frá þörfinni fyrir fíkniefnin, eins og nýja forvarnastefnan boðar – þá eigum við hiklaust að fylgja þeirri stefnu. Þess vegna hlýtur það ávallt að vera markmið að samskipti fólks séu með eðlilegum og ríkulegum hætti. Maður er manns gaman. Á meðan við höfum ánægjuleg samskipti við fólk þurfum við síður á öðru gamni að halda.

Hvað á að gera í íþrótta- og æskulýðsmálum? (15.12.2005)
Íþrótta- og æskulýðsmál hafa verið í góðum farvegi í borginni, en betur má ef duga skal. Þótt við eigum marga frábæra íþróttamenn og listamenn eru allt of mörg börn sem hætta íþróttaiðkun, listnámi eða annarri skipulegri tómstundastarfsemi allt of snemma. Þannig fara hæfileikar forgörðum og einstaklingarnir og samfélagið fá ekki að njóta þeirra.

Stuðningur við íþróttastarfsemi og listnám hefur verið verulegur. Uppbygging mannvirkja fyrir knattspyrnu, frjálsar íþróttir, skautaíþróttir og flestar inniíþróttir hefur verið veruleg í Laugardal og í öllum hverfum borgarinnar. Flest hverfafélög hafa sitt eigið íþróttahús, ef ekki, þá nýta þau íþróttahús á vegum borgarinnar. Þá hafa listaskólar, s.s. tónlistarskólar fengið talsverð framlög á hverju ári til að mennta hvern nemanda.

Samt er það svo að þessu er ekki jafnt skipt. Framlögin til íþróttafélaganna og tónlistarskólanna nýtast best þeim sem hafa tækifæri, getu og efni á því að iðka viðkomandi list eða íþrótt. Jafnvel hófleg iðkendagjöld geta verið hindrun. Þess vegna er eðlilegt að rætt sé um hvort það mætti gera þetta öðru vísi, þ.e. þannig að sem flestir fái notið iðkunarinnar. Auðvitað kostar það sitt. Húsaleigu- og æfingastyrkir til íþróttafélaganna í borginni eru áætlaðar 652 milljónir króna á þessu ári. Verulegur fjármunir fara einnig til tónlistarskólanna, svo nokkuð sé nefnt.

Spurningin er hvort ekki sé rétt að skoða í alvöru hvort ekki væri hægt að koma því við að allir iðkendur undir vissum aldri gætu iðkað að minnsta kosti eina íþróttagrein eða listgrein sér og fjölskyldu sinni að kostnaðarlausu. Tilraunir í þessa veru hafa verið gerðar og ekki er ástæða til að ætla annað en að Reykjavíkurborg gæti komið þessu í kring ef vilji er fyrir hendi. Auðvitað getum við þurft að velja og hafna þegar við stöndum frammi fyrir ýmsum leiðum og valkostum í tengslum við útgjöld borgarinnar. En ef það væri hægt að finna ásættanlega lausn á þessu yrði það ekki aðeins lyftistöng fyrir íþróttaiðkun og listnám heldur einnig stórt framfaraskref á jafnréttisbrautinni fyrir börnin í borginni.

Umhverfismálin enn og aftur í deiglunni (14.12.2005)
Umhverfismál hafa verið ofaralega á dagskrá að undanförnu. Fólk vaknar upp við vondan draum þegar óhöpp eiga sér stað víðsfjarri og minna okkur að slíkt hið sama gæti gerst hjá okkur. Það á meðal annars við um brunann í olíubirgðastöðinni við London. Svo sem áður hefur komið fram hefur umferð með eldsneyti aukist við birgðastöðina í Örfirisey, en starfsemin er nú til skoðunar. Auðvitað hlýtur það að koma til greina að geyma flugvélabensín sem notað er á Keflavíkurflugvelli í Helguvík.

Annað umhverfismál er ekki síður mikilvægt á sína vísu, en það er mikill hávaði í skólamötuneytum. Það mál er talið svo alvarlegt á sumum stöðum að hætta er á því að börnin verði fyrir varanlegri heyrnarskerðingu. Þessu þarf náttúrulega að kippa í liðinn hið snarasta. Í þessu sambandi má nefna að unnið hefur verið gegn hávaða í leikskólum með góðum árangri.

Þriðja stórmálið er umtalsverður kostnaður sem sveitarfélög verða að bera vegna förgunar á pappír. Reikna má með að það falli til um 18 til 20 þúsund tonn af pappírsúrgangi í ár, en þetta er væntanlega að mestu leyti dagblaðapappír, og ætti ekki að koma á óvart. Samband íslenskra sveitarfélaga óskar eftir því við umhverfisráðherra að lögum um úrvinnslugjald verði breytt svo hægt verði að leggja slíkt gjald á pappír. Það hlýtur að vera eðlileg krafa.

Fjórða umhverfismálið er loftmengun frá umferðinni á höfuðborgarsvæðinu, einkum á kyrrum og köldum vetrardögum. Nú virðist hafa verið ákveðið að auka dálítið við þrifin á götunum í þeirri von að það muni draga úr svifryki sem veldur hvað mestri mengun, en þetta ryk er aðallega upprifið malbik og aðrir fylgifiskar umferðarinnar. Á þetta hefur verið bent æ ofan í æ og virðist fólk vera að vakna til vitundar um að eitthvað þurfi að gera. Palli hefur lengi verið einn í heiminum – en hann fer bráðum að átta sig.

Fimmta fréttin, sem birtist í gær á vef umhverfissviðs borgarinnar, er einkar ánægjuleg. Þar kemur fram að tæplega 80% grunnskólabarna fara fótgangandi eða á hjóli í skólann að vetri til en einungis rúmlega 20% með einkabíl eða í strætisvagni. Börnin eru framtíðin. Ef þau halda þessu áfram þurfum við litlu að kvíða...

Öldrunarmálin í hnút – sem hægt er að leysa (13.12.2005)
Góð hjúkrunar- og félagsþjónusta við aldraða er forsenda þess að hægt sé að tala um velferð fyrir þann hóp. Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á þjónustu við aldraða hér á landi er á vissan hátt áfellisdómur yfir því hvernig ríkisvaldinu hefur verið beitt í þessum málaflokki – eða kannski öllu heldur: hvernig ríkisvaldinu hefur ekki verið beitt.

Í öðru orðinu segir Ríkisendurskoðun að setja þurfi fram kröfur um lágmarksþjónustu hjúkrunarheimila og jafnrétti þeirra sem þar búa. Í hinu orðinu segir stofnunin að ekki sé hægt að setja fram þessar kröfur þar sem slíkt myndi útheimta meiri framlög úr ríkissjóði. Af þessum sökum hefur ekki verið hægt að gera lágmarkskröfur um stærð vistarvera svo nokkuð sé nefnt, og fyrir vikið er einbýli á hjúkrunarheimilum aðeins rúmur helmingur og aðeins 29% íbúa hafa sérbaðherbergi. Í Noregi eru einbýli 91% af heildarfjölda hjúkrunarrýma þar í landi.

Nú held ég að sú þjónusta sem veitt er á hjúkrunarheimilum sé almennt nokkuð góð, þótt þrengsli geti verið nokkur og álag sums staðar talsvert á starfsfólk og aðstandendur. Það verður þó ekki litið framhjá því að flest heimilin eru rekin með halla og þau framlög í formi daggjalda sem þeim er að jafnaði ætlað að nýta til að standa undir rekstrinum duga engan veginn. (Árið 2003 dugðu daggjöldin aðeins hjá um19% hjúkrunarheimilanna.) Heimilin hafa barist við að halda starfsfólki, í sumum tilvikum á mjög lágum launum. Það er því alveg ljóst að ef það á að takast að bæta þjónustu og rekstur á hjúkrunarheimilunum verða laun ófaglærðra starfsmanna að hækka talsvert. Þetta er verkefni sem sveitarfélög og ríki verða að vinna við í sameiningu til langs tíma litið.

Þótt þjónustan á heimilunum sé til umræðu, þá fá ekki allir að njóta hennar. Biðlisti eftir hjúkrunarrými hefur verið talsverður – og að meðal tali um 3 mánuðir eftir að fólk er metið í brýnni þörf. Þá hefur fólk oft beðið lengi – en þó ekki í jafn brýnni þörf samkvæmt öldrunarmati. Ekki má heldur gleyma því að meðaltölin segja ekki alla söguna, því sumir bíða skemur og aðrir mun lengur. Mest er þörfin hlutfallslega hér á suðvesturhorni landsins. Í Reykjavík hafa verið á bilinu tvö til þrjú hundruð í brýnni þörf.

Með því samkomulagi sem tekist hefur á milli heilbrigðisráðuneytis og Reykjavíkurborgar verður byggt heimili í Austurbænum með um 110 rýmum og batnar þá aðstaðan verulega, en að auki mun heimili rísa í Vesturbænum í samstarfi borgar og Seltjarnarnesbæjar. Þá fjölgaði í haust um fáein rými á Droplaugarstöðum. Ástandið mun því batna talsvert á næstu árum hvað þetta varðar. En enn virðist ætla að verða sami barningurinn í rekstri heimilanna – og vandinn í þeim efnum því meiri sem plássunum fjölgar – þótt stærðarhagkvæmi gæti innan hvers heimilis. Það verður því varla ofsagt að öldrunarmálin muni verða viðamikið verkefni á næstu árum – ekki hvað síst í ljósi þess að öldruðum mun halda áfram að fjölga talsvert á komandi árum og áratugum.

En þótt við verðum að efla hjúkrunarheimilin er þó enn brýnna að efla heimahjúkrun fyrir elsta aldurshópinn ef marka má skýrslu Ríkisendurskoðunar, því það er bæði ósk hinna öldruðu að fá að búa sem lengst heima hjá sér með aðstoð – og það er auk þess hagkvæmara og manneskjulegra fyrir samfélagið. Því þótt það sé í mörgum tilvikum verið gott að geta höfði sínu hallað í skjóli fagmenntaðra stétta innan veggja stofnana, þá er heima best að vera meðan hægt er.

Sprengjulæti í Kópavoginum? (12.12.2005)
Það er grátbroslegt að fylgjast með viðbrögðum sumra við þeim kjarasamningum sem Reykjavíkurborg hefur nýverið gert við stóran hóp starfsmanna í Eflingu og Starfsmannafélagi Reykjavíkur, sérstaklega í ljósi þess að þessir samningar munu ekki vera svo ýkja frábrugðnir þeim sem fáein önnur sveitarfélög hafa gert. Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, fer hamförum yfir samningunum. Hann segir að ætlunin með samningnum sem borgarstjóri undirritaði sé að „sprengja upp íslenskt samfélag“ og að það hafi verið markmiðið að „setja samfélagið á annan endann“.

Það er greinilegt að margir eru kátir með samningana, en aðrir ekki, eins og gengur. En ef eitthvað hefur farið á annan endann með sprengjulátum, að minnsta kosti enn sem komið er, þá er það líklega fyrst og fremst á bæjarstjóraskrifstofunni í Kópavogi, þar sem bæjarstjórinn í pólitísku afbrýðiskasti skeytir skapi sínu á Steinunni Valdísi Óskarsdóttur. Eins og komið hefur fram hjá Steinunni hafa í þessari samningsgerð náðst þau markmið að hækka lægstu launin og leiðrétta nokkuð kynbundinn launamun. Um þetta er borgarstjórnin í Reykjavík sammála, einnig sjálfstæðismenn í minnihluta með Vilhjálm Þ. í fararabroddi. Enda er hann ekki með nein læti út af þessu.

Um hvað snýst velferðin í borginni? (10.12.2005)
Kjör öryrkja og aldraðra eru mjög til umfjöllunar. Stjórnvöldum svíður skýrsla háskólaprófessors sem greinir stöðu mála. Öryrkjar og aldraðir krefjast úrbóta. Á aðventunni verða lök kjör sárari og kröfur um jafnari laun og kjör skýrari. Ég ætla hér ekki að fjölyrða um dálítið sorglegan hlut ríkisstjórnar og þings heldur að snúa mér að því sem gert er í borginni. Þetta tvinnast þó allt saman.

Velferðarsvið Reykjavíkur sinnir velferðarþjónustu í höfuðborginni, m.a. barnavernd og félagsþjónustu fyrir alla aldurshópa. Við viljum jafna aðstöðu barna og velferð fyrir alla. Fjárhagslegt öryggi einstaklinga og fjölskyldna er grundvallaratriði. Velferðarkerfið á bæði að vera það öryggisnet sem grípur þá sem ekki fóta sig og að vera tæki til sjálfshjálpar og endurhæfingar þegar það á við.

Samtals er áætlað að verja á næsta ári ríflega sjö milljörðum króna til velferðarþjónustu í borginni á næsta ári. Tæplega helmingur fer í styrki og framlög af ýmsu tagi, svo sem fjárhagsaðstoð og ýmsa húsnæðisaðstoð. Að öðru leyti fara fjármunirnir til að standa undir kostnaði við dvalar og hjúkrunarrými, félagslega heimaþjónustu, stuðningsþjónustu og margt fleira. Á næsta ári leggur velferðarsvið sérstaka áherslu á að auka stuðning og aðstoð við fátæk börn og börn í áhættuhópum. Jafnframt er lögð áhersla á að samþætta og auka þjónustu við aldraða og fatlaða í  heimahúsum. Þriðja áhersluatriðið er að breyta og auka stuðning við tekjulágt fólk í húsnæðisvanda og loks er áhersla á að auka lífsgæði fyrir þá sem hafa fengið fjárhagsaðstoð í langan tíma.

Við höfum jafnrétti, réttlæti og frelsi að leiðarljósi. Við viljum að sem flestir verði virkir þátttakendur í samfélaginu. Mikilvægt er að tækifæri séu jöfn, og þá einkum hjá börnum og ungu fólki. Jólamánuðurinn er oftast útgjaldameiri en aðrir tímar. Velferðarsviðið reynir að taka tillit til þess.

Velferðarþjónustan er grundvallarþjónusta sem er nauðsynleg til þess að við getum talið okkur velferðarsamfélag. Vissulega er stór hluti þjónustunnar samkvæmt tilteknum lögum, en samt hefur borgin svigrúm til þess að leggja þær áherslur sem hún vill. Eitt af því eru sérstakir menntunarstyrkir fyrir þá sem hafa verið á fjárhagsaðstoð. Þannig á velferðarsviðið ekki aðeins þátt í því að verja fólk falli, heldur einnig að reisa það við og koma því á beinu brautina með því að auka möguleika ungs fólks til menntunar.

Velferðin í borginni snýst meðal annars um þetta. En hún snýst einnig um laun og launadreifingu. Liður í viðleitni borgarinnar til að auka velferð er að bæta stöðu þeirra sem hafa lægst laun. Meira um það síðar.

Sjá nánar á heimasíðu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.


Heiður og ofbeldi - eða mannréttindi, virðing og frelsi?
(8.12.2005)

Ég heimsótti Alþjóðahúsið í gærkvöldi og hlustaði á erindi Amal Tamimi, sem er stjórnarmaður í Samtökum kvenna ef erlendum uppruna á Íslandi. Hún fjallaði í erindinu um heiður og ofbeldi í arabískum menningarheimi. Það var ýmislegt fróðlegt sem kom fram, en flest fremur dapurlegt um örlög kvenna. Amal lagði áherslu á að heiðursmorð og hefndaraðgerðir gegn konum sem villtust út af þröngri siðferðisbraut sem karlar settu þeim en ekki sjálfum sér ætti í raun lítið skylt við trú. Þetta karlaveldi hefði verið til staðar fyrir tíma Kóransins. En með upplýsingu og menntun ætti að vera hægt að vinna gegn þessu. Erindi Amal var einn af mörgum viðburðum í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem nú stendur yfir.

            Erindið leiðir hugann að tvennu. Annars vegar að stöðu innflytjendamála hér á landi, en við verðum að forðast ýmislegt sem nágrannalöndin hafa brennt sig á. Það þýðir ekki að gera eins og sumar Norður-Evrópuþjóðir hafa gert, þ.e. opnað faðminn og boðið alla velkomna án þess að vinna mjög markvisst að því að aðlaga þjóðirnar nýjum hópum um leið og hinir nýju hópar eru látnir aðlaga sig þeim lögum, meginreglum og siðum sem allir verða að tileinka sér. Lögin í landinu eiga að ná yfir alla, sagði Amal. Í skólum og leikskólum eiga allir að sitja við sama borð – einnig við sama matarborð ef því er að skipta. Það eru sömu mannréttindi, sama frelsi einstaklingsins og sami réttur sem gildir fyrir alla, óháð uppruna.
   Hér skiptir menntakerfið mestu máli - og það er ótrúlegt að menntamálaráðuneyti skuli setja þær reglur að innflytjendur, t.d. börn flóttamanna, verði að hafa búið hér í tvö ár áður en þau mega setjast í framhaldsskóla. Það er einmitt á unglinga- og framhaldsskólastigi sem tryggja verður að óþörf aðgreining eigi sér ekki stað. Þessu verður að breyta. Velferðarráð Reykjavíkur hefur rætt þetta í tengslum við komu flóttamanna í haust.

            Hitt sem ekki verður litið fram hjá og tengist því átaki sem stendur yfir er að ofbeldi gegn konum er ekki bundið við neina eina menningu. Það er líka svartur blettur í íslensku samfélagi og það verður að vinna gegn því með öllum ráðum. Þar gegna karlar lykilhlutverki. Þótt okkur leiðist sumum stöðug umræða um að flest ofbeldisbrot séu unnin af körlum er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd. Þess vegna þurfum við líka að vinna gegn þessu með samtölum og aðgerðum. Við getum ekki bara látið konum það eftir – því, eins og Vigdís Finnbogadóttir sagði svo réttilega á ráðstefnunni Karlar um borð – það er fyrst þegar karlarnir fara líka að vinna í jafnréttismálunum sem markverður árangur næst.

Dauflegur minnihluti sjálfstæðismanna í borginni (7.12.2005)
Minnihluti sjálfstæðismanna var hálf dauflegur í umræðum um fjárhagsáætlun fyrir árið 2006 á borgarstjórnarfundinum sem ég sat í gær. Fjárhagsáætlunin sem afgreidd var endurspeglar styrka fjárhagsstöðu borgarinnar sem er í jafnvægi, og ýmis nýmæli sem til framfara horfa, s.s. nýtt skref í átt að gjaldfrjálsum leikskóla, aukin framlög til dagmæðra, auk þess að greina frá þjónustu og framkvæmdum á ýmsum sviðum.

Á fundinum kynnti borgarstjóri, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, helstu atriði, og greindi meðal annars frá nýgerðum kjarasamningi við stóran hóp starfsmanna borgarinnar sem eru í Eflingu og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Formenn nefnda borgarinnar kynntu það helsta sem undir þeirra svið heyrir. Þannig fór Stefán Jón Hafstein yfir mennta- og menningarmál borgarinnar, Anna Kristinsdóttir yfir íþrótta- og tómstundamál, auk helstu framkvæmda, Árni Þór Sigurðsson yfir umhverfismál og hafnarmál, Alfreð Þorsteinsson yfir orkumálin meðal annars, Björk Vilhelmsdóttir yfir velferðarmál og málefni Strætó og Dagur B. Eggertsson yfir skipulagsmálin.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson endurtók sömu gömlu tugguna um skuldasöfnun. Hann var ekki að tala um skuldasöfnum borgarsjóðs, heldur fyrst og fremst um þær skuldir sem Orkuveitan hefur stofnað til vegna ýmissa arðbærra framkvæmda. Síðan láta sjálfstæðismenn í veðri vaka að það þurfi að greiða þær skuldir með skattfé, þegar reyndin er auðvitað sú að tekjur Orkuveitunnar af arðbærum framkvæmdum, t.d. á Nesjavöllum og á Hellisheiði, greiða niður skuldir veitunnar. En þannig hafa sjálfstæðismenn reynt að slá ryki í augu borgarbúa – og reyna enn.

Og það sem meira var: Það kom fram á fundinum að þegar tekið er mið af ýmissi grundvallar þjónustu og miðað við nokkurs konar meðalfjölskyldu, þá er þjónustan talsvert ódýrari hér í Reykjavík en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þegar sjálfstæðismenn svöruðu því til að það þyrfti að reikna með því að útsvarsprósentan væri örlítið hærri hér í Reykjavík en í tveimur nágrannasveitarfélaganna – og það var gert – kom í ljós að aukin skattbyrði myndi ekki vega upp muninn í þjónustugjöldunum fyrr en heimilistekjur væru farnar að nálgast 20 milljónir á ári!

Minnihluti sjálfstæðismanna var sem sagt þreyttur og daufur í gær, enda var umræðan í styttra lagi, þótt Mogginn haldi því fram að þetta hafi verið maraþonumræður. Vissulega hófst fundurinn kl. 14 og stóð í um níu klukkustundir, en hann var samt talsvert styttri en fyrir ári þegar hann stóð langt fram á nótt. Í þetta sinn fór tíminn að mestu leyti í greinargerðir okkar í meirihlutanum og mun ég síðar birta úr þeim ræðum sem ég flutti, þegar mér berast útprentanir frá fundinum.  

Ég birti hér í lokin bókun borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans í tilefni af samþykkt fjárhagsáætlunar:

Samþykkt fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2006 felur í sér eflda þjónustu Reykjavíkurborgar, áframhaldandi uppbyggingu og ábyrgð í rekstrinum.
   Sú stefna sem mörkuð er í fjárhagsáætluninni er í anda þeirrar félagshyggju og samhjálpar sem verið hefur aðalsmerki Reykjavíkurborgar í rúman áratug. Enn er horft fram á veg með þjónustu við borgarbúa að leiðarljósi, jafnrétti þeirra og jafnræði.
   Nú er tekið annað skrefið í átt til gjaldfrjáls leikskóla, en leikskólaþjónustan er sjálfsögð grunnþjónusta við íbúa og á því að greiðast úr sameiginlegum sjóðum borgarbúa.
   Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2006 ber með sér að ábyrg fjármálastjórn Reykjavíkurlistans hefur skilað borgarbúum í senn öflugri þjónustu, lágum þjónustugjöldum, lækkuðum skuldum og traustri fjárhagsstöðu.
   Þeim árangri má ekki tefla í tvísýnu.

Siðbót sjálfstæðismanns? (6.12.2005) (Fréttablaðið birti þetta 9.12.2005)
Frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á dögunum lýsti því yfir að hann sæktist ekki eftir fjárstuðningi frá byggingaverktökum og gaf þar með í skyn að það gæti verið varasamt fyrir stjórnmálamann að taka við fé úr byggingabransanum. Það væri hins vegar í lagi að þiggja fé frá öðrum. Af þessu tilefni er eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvað liggi að baki þegar aðrir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, þ.e. þeir sem ekki höfðu þennan fyrirvara á styrk frá byggingaverktökum,  lýsa yfir skoðunum í skipulags- og byggingarmálum. Nú vil ég ekki halda því fram að fé sem fyrirtæki veita frambjóðendum í prófkjörsbaráttu móti skoðanir þeirra eða afstöðu í tilteknum málum. Yfirlýsing hins siðbætta sjálfstæðismanns er þó á sama meiði og margra annarra um að fjárstuðningur af þessu tagi geti sett stjórnmálamenn í vanda því það geta alltaf vaknað spurningar um heilindi. Og það er náttúrulega misskilningur hjá sjálfstæðismanninum að það sé eitthvað verra að taka við fé frá byggingaverktökum en einhverjum öðrum.
            Þessi umræða á fyllilega rétt á sér. Borgarstjórn úthlutar ýmsu verðmætu til fyrirtækja í borginni. Það er ekki bara land til að byggja á, heldur er það aðstaða undir starfsemi af ýmsu tagi, ákvarðanir um skipulagsmál sem hafa veruleg áhrif á fyrirtæki og borgarbúa, starfsleyfi fyrirtækja og eftirlit með starfseminni, og kaup á ýmiss konar vörum og þjónustu fyrirtækja. Við þekkjum það af nýlegum fréttum erlendis frá að fjárframlög og hagsmunaþrýstingur geta haft skaðleg áhrif og einstaklingar hafa þurft að taka pokann sinn þegar upp hefur komist að peningarnir hafi haft óeðlileg áhrif. Það ber þó að undirstrika að það gilda mjög ákveðnar reglur um innkaup borgarinnar, um meðferð fjármuna og um það hvernig ýmsar ákvarðanir eru teknar.
            Þær reglur sem segja til um hæfi eða vanhæfi sveitarstjórnamanna til að taka ákvörðun í málum taka ekki beinlínis á því sem hér er rætt um. Fólk verður í raun að eiga þetta við samvisku sína. En það hlýtur að vera eðlileg spurning í framhaldi af orðum frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins – og í raun eðlileg spurning almennt séð – hvort þeir sem hafa þegið fé frá byggingaverktökum verði ekki að víkja sæti þegar mál er varða umrædda verktaka eru til umfjöllunar í nefndum eða ráðum borgarinnar. Og þá hvort ekki sé rétt að fulltrúar víki almennt sæti ef mál er tengjast fyrirtækjum sem þeir hafa þegið fé frá eru til umfjöllunar. Þetta hljóta að vera eðlilegar vangaveltur. Í framhaldi af því mætti spyrja hvort ástæða væri til að setja um þetta einhverjar sérstakar reglur, t.d. um það að frambjóðendur upplýsi um það hverjir hafi stutt þá fjárhagslega, ef um slíkt er að ræða, og í hve miklum mæli. Fyrirtæki eru rekin með hagnað að leiðarljósi og það má spyrja hvort þessir styrkir skapi þeim jafn mikinn arð og aðrir peningar. Af því leiðir að það hlýtur að vera eðlileg spurning hvort ástæða sé til að setja svona fjárstuðningi einhverjar skorður – og í það minnsta að hafa hann allan uppi á borðinu.

Samfylkingunni vex ásmegin (5.12.2005) (Fréttablaðið birti þetta 6.12.2005)
Það hefur verið dálítið forvitnilegt að fylgjast með umfjöllun sumra fjölmiðla og andstæðinga Samfylkingarinnar um stöðu flokksins. Þessir aðilar gera hvað þeir geta til að draga upp mynd af óeiningu í flokknum og vega að flokksformanni með því að segja að hann hafi ekki stjórn á sínu liði. Það er eins og þeir haldi að þeir geti gert flokknum mesta skráveifu ef þeir ráðast að persónu og störfum Ingibjargar Sólrúnar. Jafnframt hamast þeir á því að það séu ekki allir nákvæmlega sömu skoðunar í flokknum. Ekki hef ég orðið var við skoðanaágreining - en þótt ekki væru allir alveg sammála væri það ekkert tiltökumál í stórum flokki. Hins vegar þætti okkur  vissulega betra að vera ofar í könnunum - og það á eftir að koma. Allir viðurkenna að það sé vel og skipulega unnið í flokknum undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur - og jafnvel andstæðingar viðurkenna að flokksstarfið sé þróttmikið í samanburði við aðra flokka. Þess vegna mun sól Samfylkingar rísa. Ingibjörg á eftir að leiða Íslendinga inn á nýjar brautir. Það munu fjölmargir bætast í fylgishópinn á næstunni, jafnframt því sem margir eiga eftir að ganga til liðs við flokkinn í pólitísku starfi. Við skulum bara bíða róleg. Samfylkingunni mun verða treyst fyrir stórum og vandasömum verkum í næstu tvennum kosningum.

Jafnréttisáfangi? (2.12.2005)
Í gær sótti ég ráðstefnu sem frú Vigdís Finnbogadóttir átti frumkvæði að. Karlar um borð, var sagt – og átt við að þeir þyrftu að setjast um borð í jafnréttisskútuna. Þarna voru einungis karlar fyrir utan Vigdísi. Það var gaman að heyra í Vigdísi eins og oft áður. Þetta var hugsanlega í fyrsta sinn í heiminum sem svona stór hópur karla – og svona valdamikill á sína vísu – kom saman til að ræða málefni kvenna, eins og einhver orðaði það. Ég er reyndar á því að jafnréttismál séu bæði karla- og kvennamál. Það hnussaði í sessunauti mínum þegar Ari Edwald talaði um jákvæðan vilja fyrirtækja í málinu. Mér fannst samt gott hjá Ara að taka þátt í þessu og viðurkenna vandann. Mér fannst hins vegar miklu verra að ég þurfti að yfirgefa selskapinn tiltölulega snemma vegna skyldustarfa sem kölluðu. Þegar ég læddist út læddust nokkrir aðrir karlar hljóðlega inn sem vildu líka leggja málstaðnum lið með því að láta sjá sig.
     En stundum er hlutunum slegið upp í tómt grín þótt grafalvarleg séu, eins og einu sinni þegar ég sótti fundi jafnréttisnefndar Reykjavíkur. Þá orðaði ég það hvort við ættum ekki að líta á reglur sem opinberir aðilar í Noregi hafa sett sér um að skilyrða notkun dagpeninga á ferðalögum opinberra starfsmanna. Norðmenn banna nefnilega að peningarnir séu notaðir til að greiða fyrir allt sem tengist klámi og vændi. Það er svo margt gott sem kemur frá frændum okkar og frænkum í Noregi og Svíþjóð finnst mér. Þessu frumkvæði mínu var nú misjafnlega tekið. Sumir tóku þessu vel en aðrir fundu þessu allt til foráttu. DV fjallaði um þetta, en það sem mér sárnaði nú mest var að Sigmund sá ástæðu til þess að teikna mynd af þessu tilefni í Moggann af borgarfulltrúum á leið í ferðalag. En ég, upphafsmaður málsins, var hvergi sjáanlegur á myndinni, heldur teiknaði hann mynd af nafna mínum, Stefáni Jóni Hafstein, með refsivöndinn yfir Alfreð, Þórólfi og Árna Þór sem voru á leið upp í flugvél. Sjálfsagt hefur nafni minn orðið jafn hissa og ég varð sár – en vonandi hefur hann verið sáttur – því þetta er gott og þarft málefni – og í raun sama hvaðan gott kemur.
     Öllu gríni fylgir alvara - stundum dauðans alvara. Nú stendur yfir átak gegn kynbundnu ofbeldi. Það er hryllingur sem beinist bæði gegn börnum og fullorðnum. Það er áfangi út af fyrir sig að viðurkenna vandann og vekja athygli á honum. En við eigum enn talsvert í land í jafnréttisskútunni - jafnvel þótt karlar setjist líka undir árar eða hífi seglin. En vonandi miðar okkur betur áfram.

Stjórnin endurkjörin (1.12.2005)
Á aðalfundi Hverfafélags Samfylkingarinnar í Breiðholti sem haldinn var í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi í gærkvöldi var stjórnin endurkjörin. Stjórnin skipti með sér verkum og er Stefán Jóhann Stefánsson formaður, Kristín Guðbjörnsdóttir ritari og meðstjórnendur þau Áslaug Þórisdóttir, Gunnar H. Gunnarsson og Gunnar Þórðarson.
     Á fundinum flutti Stefán Jóhann skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár. Þar kom m.a. fram að starfið hefði markast mjög af viðburðum á vettvangi flokksins á landsvísu og í borgarstjórn. Farið var yfir ýmis hagsmunamál hverfisbúa.     
     Aðalræðumenn kvöldsins voru þrír. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, kynnti ýmislegt sem laut að þjónustu og framkvæmdum í hverfinu og víðar í borginni og ræddi stöðu Samfylkingarinnar. Stefán Jón Hafstein, formaður borgarráðs, rakti þróun borgarmála síðustu 12 ár og undirstrikaði þá breytingu sem orðið hefði með Reykjavíkurlistanum og stofnun Samfylkingarinnar sem keppti nú við Sjálfstæðisflokkinn um að verða stærsta aflið í borginni. Mörður Árnason, alþingismaður, fór yfir stefnu Samfylkingarinnar og stöðu í ýmsum landsmálum.
     Almennir fundargestir spurðu framsögumenn margra spurninga, svo sem um umferðaröryggismál, kennslumál, almenningssamgöngur, heilsugæslu, íþróttaaðstöðu, velferðarstefnu og ýmis stefnumál sem undir þingflokkinn heyra.

Aðalfundur í Breiðholti (30.11.2005)
Aðalfundur Hverfafélags Samfylkingarinnar í Breiðholti er í kvöld kl. 20 í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi. Þar mun ég flytja skýrslu stjórnar, ný stjórn verður kjörin og svo munu þau Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, Stefán Jón Hafstein, formaður borgarráðs og Mörður Árnason alþingismaður, flytja erindi um stjórnmálin í borginni og í landsmálunum.

Þótt Breiðholtshverfin eigi að teljast fullbyggð vilja íbúarnir sjá verða af ýmsum framkvæmdum sem horfa til bóta. Þar má nefna áframhaldandi uppbyggingu íþrótta- og útivistaraðstöðu, viðbætur við skóla og lagfæringar á götum og stígum; þar viljum við efla öryggi fyrir vegfarendur, stuðla að greiðum leiðum og fegra umhverfið. Nú er stefnt að því að verja 120 milljónum króna í gervigrasvöll á ÍR-svæðinu á næsta ári, nýr sparkvöllur er risinn við Seljaskóla og það sér fyrir endann á skorti á mötuneytum í skólum í Breiðholti. Nýtt íþróttahús ÍR er á viðræðu- og teiknistigi, en félagið þarf hús sem sameinar deildir félagsins undir einu þaki og eflir það þannig sem hverfisfélag. Þá hefur verið lofað að lagfæra skíðabrekkuna við Jafnasel og - síðast en ekki síst: Útlit er fyrir að orðið verði við óskum íbúanna um nýja strætóleið úr Breiðholtinu, þ.e. leið sem fer niður í Laugardal um Suðurlandsbraut, líkt og gamla „tólfan“ gerði. Það hefur verið óskað eftir þessu bæði vegna ungra íþróttaiðkenda sem þurfa að fara í Laugardalinn og eins hefur fólk sem vinnur á þessu svæði óskað eftir að þessi gamla leið verði endurvakin. Með þeim endurbótum og fleirum mun leiðakerfi strætó verða þétt frekar frá því sem orðið er og ætti það því að nýtast vel, en viðbrögðin við hinum greiðu og tíðu ferðum eftir stofnleiðum hefur vakið talsverða ánægju, þótt fáein önnur atriði hafi verið gagnrýnd. Það er vonandi að þetta verði til þess að skapa aukna sátt um strætókerfið og að þetta muni auka aðsókn fólks í þjónustu Strætó bs. Um þetta og fleira verður fjallað á aðalfundinum í kvöld. Ég hef verið formaður hverfafélagsins frá stofnun árið 2003, en aðrir í stjórn hafa verið á þessu ári þau Kristín Guðbjörnsdóttir, Gunnar H. Gunnarsson, Gunnar Þórðarson og Áslaug Þórisdóttir.

Lýðheilsan var til umræðu! (29.11.2005)
Ég stóð við gefin fyrirheit í síðasta pistli og fór með strætó í vinnuna í gær. Ferðin í bæinn kostaði bara 220 krónur og ég nýtti tímann til þess hreinsa út smáskilaboð úr símanum mínum og fylgjast með samferðafólkinu. Vagninn var fullur af fólki, en þó ekki troðinn þannig að allir fengu sæti. Nokkrir lásu og aðrir hlustuðu á tónlist. Ferðin úr Seljahverfi niður á Lækjartorg tók um 20 mínútur. Vagnarnir aka nú á 10 mínútna fresti sem er betri þjónusta en þegar ég tók strætó að jafnaði nokkrum sinnum í viku í tæp tíu ár, þ.e. þegar aðeins var einn bíll á heimilinu. Í hádeginu í gær skaust ég svo  á fyrirlestur um lýðheilsu á Heilsuverndarstöðinni við Barónstíg, gekk báðar leiðir og naut þess í góða veðrinu að fara um og skoða götur sem ég mundi áður varla eftir. Fyrirlesturinn sem ég hlýddi á fjallaði um félagslegar hliðar lýðheilsunnar, þ.e. um viðleitni velferðarsviðs borgarinnar til að aðstoða þá sem lenda í ýmsum erfiðleikum. Þar eru fjölmörg lýðheilsuverkefni í gangi sem flokka má bæði sem forvarnir og endurhæfingu. Ég hugsa þó að fátt hafi gert mér jafn gott síðustu daga og göngutúrinn í hádeginu. Ég finn hreinlega vellíðan hríslast um mig! Það er þá eitthvað annað en líðanin daginn eftir fótboltaiðkun með öðrum öldungum. Þá er maður þreyttur, sár og þjáður – á líkama að minnsta kosti. Alveg eins og Guðni Bergs var síðustu árin í boltanun, nema maður sleppir bólgueyðandi verkjapillum – yfirleitt. Líklega er best fyrir mann að fara að hætta þessu sparki, nema félagarnir verði til í að breyta þessu í göngubolta. Göngutúrarnir gera manni gott!

Loftmengun - fer í strætó í dag! (28.11.2005)
Síðustu daga hafa íbúar á höfuðborgarsvæðinu orðið greinilega varir við þá loftmengun sem fylgir umferðinni. Þetta gerist einkum á köldum vetrardögum þegar vindur feykir menguninni ekki burt. Við verðum bæði vör við ryk við helstu umferðaræðar og svo sést oft gul slikja yfir höfuðborgarsvæðinu. Við þessar aðstæður geta mengandi efni mælst yfir viðmiðunarmörkum sem eru sett með heilsu íbúanna í huga. Þessu þarf því að bregðast við. Mengunin er fyrst og fremst frá umferðinni og því verður að beina sjónum meðal annars að einkabílnum þótt fyrir suma sé hann eins og heilög kýr. Þar hafa ýmis atriði verið rædd. Auðvitað geta margir tekið strætó - að minnsta kosti við og við. Margir geta líka gengið meira og ekið minna. Það er hægt að breyta aksturslagi. Það má þrífa götur oftar og betur á öllu höfuðborgarsvæðinu. Þá má spyrja hvort það sé ekki sóun á miðborgarlandinu að bjóða upp á ókeypis bílastæði eins og gert hefur verið við framhaldsskóla og víðar. Því tengt, en einkum út frá umferðaröryggi, spyrja sumir hvort ekki ætti að hækka ökuleyfisaldur í 18 ár. Síðast en ekki síst þá eru það nagladekkin. Þau rífa og tæta upp malbikið. Sjálfur hef ég ekki ekið á negldum dekkjum í tvö ár. Vissulega fæ ég spurningar um það hvort ég ætli ekki að setja nagladekk undir þá fáu daga þegar einhver hálka er. En það er líklega jafnmikið fengið með því að aka í staðinn þeim mun varlegar. Og ef tveir eða fleiri bílar eru á heimilum ætti varla að vera þörf á því að setja nagla undir alla, að minnsta kosti ekki undir þá bíla sem eru með góðan bremsubúnað og sídrif á öllum dekkjum sem bregst ágætlega við í hálkunni. En af þessu tilefni ætla ég að fara í strætó í dag! (Sjá nánar á vef umhverfissviðs borgarinnar)

Skemmtiskokk Samfylkingar! (25.11.2005)
Fyrir flesta er það nokkuð stór ákvörðun að gefa kost á sér í prófkjöri. Og það getur sett pressu á peningapunginn, sálarlífið og heilsuna – ef ekki er rétt að farið. Hjá sumum hefur allt skotsilfur horfið og skuldabaggi orðið til, aukakílóin hafa horfið í amstrinu og sálartetrið orðið dálítið togað. Við í Samfylkingunni ætlum að fara rétt að. Við látum þetta ekki henda okkur.Við ætlum ekki að eyða um 50 milljónum í prófkjörsbaráttu einstaklinga eins og sjálfstæðismenn hafa gert. Við ætlum að hafa gaman að þessu. Það verður fjöldi kvenna og karla sem ætlar með okkur í skemmtilegt prófkjör í febrúar. Þetta verður eins konar fjölskylduganga eða skemmtiskokk þar sem fáeinir munu taka góðan lokasprett. Eins og í öðru skemmtiskokki eru verðlaun flestra þau að taka þátt og vera með. Í þessu hlaupi mun enginn bregða fæti fyrir annan. En vitaskuld þurfum við að nota tækifærið til að velja forystu og þar munu þau Stefán Jón og Steinunn Valdís keppa um að koma fyrst í mark. Við hin ætlum þó ekki að missa þau úr augsýn. Því þótt við viljum krýna forystumann í lokin erum við jafnaðarmenn og stöndum öll jöfn að leik loknum. Hress og kát!

Umönnunarbókhaldið!  (24.11.2005)
Þegar ég sagði syni mínum nýlega að nú ætti ég inni hjá honum að minnsta kosti fjögur umönnunarár í ellinni leit hann fyrst undrandi á mig og síðan var eins og skelfingin gripi hann. Stuttu síðar tilkynnti hann mér að hann hygðist flytjast til Vesturheims vegna náms og setjast þar að þar sem möguleikar á starfi væru meiri! Þar fór nú það. Ég sem hafði vonað að fyrst ríki og sveitarfélögum tekst ekki að sinna gamla fólkinu sómasamlega, samanber nýlega skýrslu um öldrunarmál, myndu börnin kannski hlaupa undir bagga. En auðvitað næði lausn af því tagi skammt fyrir samfélagið.
     Þetta minnti mig á það þegar ég var í menntaskóla og samnemandi minn sem hafði þá þegar gengið með íhaldsþingmann í maganum um nokkurt skeið sagði okkur að besta lausnin fyrir aldraða væri sú að börnin sæju um þá. Þetta væri bara hringrás! Einfalt mál. Þessi nemandi ungaði svo út þingmanninum eftir langa meðgöngu og er nú orðinn ráðherra, en svei mér ef staða aldraðra er betri nú en þegar hann hélt yfir okkur ræðuna forðum. Og þó: Félagsleg heimaþjónusta hefur þróast og heimahjúkrun er skipulagðari – en samt vantar enn talsvert á að settum markmiðum sé náð. Enn getur fólk þurft að bíða í ár eða meira eftir hjúkrunarvist, þótt meðaltalið sé náttúrulega lægra. Þegar við verðum búin að bæta við 110 nýjum hjúkrunarrýmum í Sogamýrinni vænkast hagur okkar – en þangað til held ég að við, sem getum, verðum að skrá umönnunarbókhaldið gagnvart börnunum. Eftir að þau eru orðin 18 ára og ennþá í foreldrahúsum tel ég nefnilega að foreldrarnir geti farið að skrá umönnunarinneign til nota í ellinni – ef Guð lofar! Bara það verði ekki til þess að börnin flýi skerið....

Málefni húsnæðislausra  (23.11.2005)
Það er sorglegt að horfa upp á það í allsnægtar-þjóðfélagi að margir hafa hvergi höfði sínu að halla. Sá hópur sem er í slíkum aðstæðum er breytilegur, en þegar út í slíkt óefni er komið er yfirleitt að baki saga um mikla erfiðleika og margvísleg vandamál. Fjölmargir lenda í tímabundnum húsnæðiserfiðleikum, en fæstir af þeim þurfa þó að leita til velferðarstofnana eftir húsaskjóli yfir nóttina. Samkvæmt nýlegri skýrslu félagsmálaráðuneytis kemur fram að húsnæðislausir í Reykjavík voru samkvæmt gefinni skilgreiningu í janúar í ár samtals 48, þ.e. 43 karlar og 5 konur. Þetta er sá hópur sem á í mestu erfiðleikunum. Um þriðjungur hans var í opinberum gistiskýlum og um þriðjungur virðist hafa verið bókstaflega á götunni. Auðvitað er eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé hægt að gera meira fyrir þennan  hóp. En í því eins og öðru byggir það á ábyrgð einstaklings sjálfs og samhygð annarra hver niðurstaðan verður. Þetta mál verður áfram til umfjöllunar á vettvangi velferðarmála borgarinnar. Við þurfum að gera betur. (Viðbót: Velferðarráð ákvað í dag að bregðast við, sjá frétt á mbl.is).

Vilja SA og íhaldið einkavæða allt heilbrigðiseftirlit? (22.11.2005)
Samtök atvinnulífsins og tilteknir erindrekar ríkisstjórnarinnar hafa verið í herferð gegn heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna. Starfsmenn SA hafa á undanförnum misserum lagt sig í líma við að gera eftirlitið og gjöld vegna þess tortryggileg og tiltekin ráðuneytisnefnd vill taka verkefnið frá sveitarfélögunum. Herbragðið gengur út á það að færa eftirlitið fyrst frá sveitarfélögunum til ríkisins og síðan fela það „faggiltum skoðunarstofum“. Á bak við er sögð krafa um samræmingu, hlutleysi og jafnræði – og að boðvaldið verði skýrara ef ríkið rekur heilbrigðiseftirlitið. Hinn undirliggjandi hvati er þó greinilega sú pólitíska skoðun Samtaka atvinnulífsins og frjálshyggjupostula að færa beri eftirlitið einkaaðilum. Spyrja má hins vegar hvort eðlilegur markaður geti myndast fyrir slíka starfsemi og hvort það yrði ekki fyrst ósamræmi í eftirlitinu ef einkaaðilar ættu að sinna því á öllu landinu. Þetta brambolt atvinnurekenda og frjálshyggjuerindreka ríkisstjórnarinnar gengur þvert á þá stefnu sem gilt hefur meðal sveitarfélaga um að þau taki að sér fleiri verkefni frá ríkinu – fái þau fjármagn til þess. Það vekur hins vegar athygli að þetta virðist vera af svipuðum hvötum og miðstýringartilhneiging fleiri ráðherra íhaldsins. Leikurinn gengur út að að láta ríkið ná fyrst almennilegum tökum á tiltekinni starfsemi svo hægt sé að afhenda einkaaðilum hana síðar.

Flutningar með eldsneyti úr Örfirisey hafa aukist nokkuð (21.11.2005)
Samkvæmt upplýsingum sem Umhverfisráði Reykjavíkur hafa borist hefur ferðum Olíudreifingar hf. með eldsneyti fjölgað um 30% eftir 1. júlí í ár vegna litabreytingar í díselolíu og ferðum Skeljungs hf. einnig fjölgað nokkuð af sömu ástæðu. Ennfremur hafa flutningar Olíudreifingar á þotueldsneyti frá Örfirisey aukist um 30% eftir að olíubirgðastöð var lögð niður í Hafnarfirði.
     Þetta vekur upp þá spurningu hvort ekki sé hægt að koma upp birgðastöð fyrir þotueldsneyti nær þeim stað þar sem notkunin er mest, en með því væri hægt að draga úr umferð með það í gegnum þéttbýli og þar með þeirri mengun og þeirri hættu sem þessum flutningum getur fylgt.
     Í umræðu er að skip sæki olíu í meira mæli en áður beint í Örfirisey þannig að olíuflutningar með bílum muni minnka.
     Þessar upplýsingar benda hins vegar til þess að fyllsta ástæða sé fyrir borgaryfirvöld til að vera á verði vegna breytinga sem kunna að eiga sér stað með fyrirkomulag á olíusölu og olíuflutningum. Vitaskuld þarf að tryggja að flutningar og viðskipti gangi greiðlega fyrir sig, en í þessu tilviki þarf einnig að skoða þá mengun sem þessu fylgir og þá áhættu sem í þessu felst, ekki hvað síst þegar flutningarnir aukast eins og raun ber vitni.

Velferðarráð einróma í gagnrýni á áfengisauglýsingar (20.11.2005)
Að undanförnu hafa áfengisauglýsingar verið til umræðu á nokkrum fundum sem ég hef sótt. Ýmsir telja augljóst að þessar auglýsingar stangist á við lög, þótt þeim fylgi eitthvert smáletur um lítt áfenga drykki. Ég lagði til við fulltrúa í velferðarráði Reykjavíkur, þar sem ég sit, að við ályktuðum um þetta. Því var vel tekið og samþykkt var einróma bókun, sem einhverjum fjölmiðlum þótti harðorð, þar sem þeir sem fyrir auglýsingunum standa voru harðlega gagnrýndir fyrir að beina þessum auglýsingum að ungu fólki. (Sjá ályktunina í fundargerð velferðarráðs frá 9. nóvember sl., liður nr. 10) Sjá einnig viðtal við mig í útvarpi 14.11.05.
     Í síðustu viku mætti ég svo á morgunverðarfund samstarfshópsins Náum áttum, en þar voru flutt ágæt erindi um áfengisauglýsingar. Erindin fluttu þeir Árni Guðmundsson, forstöðumaður félagsmiðstöðva í Hafnarfirði, Stefán Hrafn, upplýsingafulltrúi Lýðheilsustöðvar og Þorvaldur Þorsteinsson, rithöfundur og auglýsingaframleiðandi. Inntak umræðunnar var að þessir auglýsendur ættu að fara að lögum eins og aðrir og að það þyrfti að verja börn og unglinga fyrir skaðlegum áhrifum áfengis, eins og lögin gera m.a. ráð fyrir. Þá þótti ýmsum furðulegt að auglýsendur kæmust upp með að fara svona á svig við lögin og að það virtist ekkert vera hægt að gera. Fram kom að hér væri um verulega fjármuni fyrir áfengisseljendur að tefla. Skyldi fjármagnið ráða ferðinni hér eins og víða annars staðar? Ég held reyndar að fjármagnið ráði ferð auglýsendanna, en gallar í lögunum virðast koma í veg fyrir að brugðist verði á viðunandi hátt við þessum lagabrotum.

Fjárhagsáætlun borgarinnar lofar góðu (15.11.2005)
Í dag var ágætur borgarstjórnarfundur. Frumvarp að fjárhagsáætlun fyrir árið 2006 var lagt fram. Frumvarpið endurspeglar hina miklu þjónustu sem veitt er í borginni til mennta-, velferðar-, íþrótta-, tómstunda-, menningar-, umhverfis- og samgöngumála. Rekstrarútgjöld borgarstjóðs eru áætluð um 41 milljarðar króna. Heildartekjur borgarsjóðs eru ríflega 45 milljarðar króna. Eftir að búið er að taka tillit til framlaga vegna lífeyrisskuldbindinga, afskrifta og fjármagnsliða er afgangur upp á rúman milljarð króna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir óbreyttri útsvarsprósentu, en reiknað með því að álagningarhlutfall fasteignagjalda verði lækkað, þjónustugjöld verði áfram með lægsta móti á höfuðborgarsvæðinu og að næstu skref verði stigin í átt að gjaldfrjálsum leikskóla.
     Viðbrögð oddvita sjálfstæðismanna voru fyrirséð: Lækka skyldi skatta og gjöld, og dreifa lóðum út um holt og grundir. Það er ekki víst að slíkt þætti gott háttalag á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna. En henni er jú lokið í bili og kosningar í nánd. Víst er að Reykjavíkurlistinn getur verið fullsáttur við stöðu borgarinnar, hvort sem borið er saman við fyrri tíma eða við önnur sveitarfélög.

Samgöngumál og umgengni á fundi borgarstjóra (14.11.2005)
Það hitnaði dálítið í kolunum þegar samgöngur og umgengni bar á góma á fundi borgarstjóra með íbúum miðbæjar í Ráðhúsinu í kvöld. Undir lok fundar minntist einn borgarinn á að rusl á götum væri of mikið, þrifin ekki næg og eftirlit með þeim ekki heldur. Minnst var á glerbrot um helgar og óþrifnað frá mönnum og dýrum og hreinsunarfólk sem æki um sofandi á hreinsitækjum sínum! Formaður Hverfisráðsins minnti á að umgengni fólks væri stundum afar slæm og að fólk þyrfti að taka sig á í þeim efnum, og borgarstjóri taldi að þrifin ættu að vera í þokkalegu lagi og að með þeim væri eftirlit. Auk þess væri komið í lögreglusamþykkt að sekta mætti fólk fyrir að henda rusli.
     Annars var rætt um margt fleira; samgöngumálin eins og alltaf, en fólk vill komast bæði hratt og örugglega leiðar sinnar, sem fer ekki alltaf saman. Þá voru skólamál til umræðu, skipulagsmál á Barónsreit og spurningin um nauðsyn þess fyrir stúdenta í einstaklingsíbúðum að hafa einkabíl og einkabílastæði í miðbænum þótt þeir búi við greiðar almenningssamgöngur. Gerði borgarstjóri góða grein fyrir öllu af hálfu borgarinnar.
     Aftur að ruslinu. Umræðan í kvöld minnti mig á það þegar ég ók nýlega eftir Sæbrautinni að kvöldi dags og sá þá að eitthvað flaug út um hliðarrúðu bíls sem var fyrir framan mig. Svo flaug eitthvað fleira út um gluggann og enn annað. Ég sá þá að þetta voru umbúðir utan af ís eða gosi, munnþurrkur og annað þess háttar drasl, en í bílnum voru fjórir eða fimm einstaklingar. Mér blöskraði auðvitað, en á meðan fólk hegðar sér svona er ekki nema von að stundum sé kvartað. Hér þarf hugarfarsbreytingu til að koma hlutum í lag. Hitt er svo annað mál hvort skoða þurfi fyrirkomulag þrifnaðar. Kannski hafa sömu fyrirtækin sinnt þessu of lengi fyrir borgina. Ef til vill þurfum við bara að ráða gamaldags götusópara aftur eins og einn fundarmaður lagði til. Eða hvað?

13.11.2005: Réttlæti, sanngirni og neytendaviðmiðun
Nú standa yfir Samfylkingardagar og var flokksstjórnarfundur haldinn í gær. Þar hélt Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður flokksins yfirgripsmikla og eftirtektarverða ræðu eins og hennar er von og vísa. Fjölmiðlar hafa gert ræðunni nokkur skil, en mig langar hér að staldra við örlítinn hluta hennar. Þar fjallaði hún um aukna misskiptingu í samfélaginu þar sem réttlæti víkur fyrir hagræði og sanngirni fyrir skilvirkni og nefndi þjónustu við aldraða í því samhengi. Þetta leiðir auðvitað hugann að opinberum rekstri og þjónustu og umræðu um breytingar, umbætur, sparnað og niðurskurð. Hagræðing og skilvirkni getur auðvitað verið góð og við þurfum að sjálfsögðu að fara hagkvæmar leiðir og nýta vel fé, en við rekstrarumbætur verður að gæta réttlætis og sanngirni, en því vilja frjálshyggjumenn oft gleyma. (Sjá ræðu formannsins)
     Annað atriði sem festist í huga mér voru orð Svanfríðar Jónasdóttur um flokka sem annars vegar tækju mið af þörfum neytenda og hins vegar af þörfum framleiðenda. Slíkt getur auðvitað farið saman í sumum tilvikum að mínu mati, en ef hagsmunir rekast á eru það auðvitað hagsmunir neytenda sem skipta meginmáli. Samfylkingin vill öflugan atvinnurekstur og góða framleiðslu í landinu og styður atvinnurekendur og framleiðendur í þeirri viðleitni - með þarfir neytenda í huga. Sumir aðrir flokkar miða hins vegar fyrst og fremst við þarfir framleiðenda og atvinnurekenda og láta sig hagsmuni neytenda oft litlu skipta. Þetta fannst mér athyglisverð ábending frá Svanfríði.

10.11.2005: Þjónustan í Reykjavík
Við í Samfylkingunni viljum halda áfram að bæta þjónustuna í Reykjavík. Á borgarmálaráðstefnunni sem við héldum í lok október fórum við yfir þessi mál og lögðum grunn að stefnumótun í mörgum málaflokkum fyrir komandi kosningar. Það hefur ótrúlega margt áunnist undir stjórn Reykjavíkurlistans í fjölmörgum málaflokkum; leikskóla- og skólamálum, félagsmálum, umhverfismálum, stjórnsýslumálum o.fl. o.fl. Reykjavíkurborg veitir góða þjónustu, enda vilja íbúar margra sveitarfélaga flytja hingað. Þegar greiða þarf fyrir þjónustuna er hún í flestum tilvikum ódýrari en í nágrannasveitarfélögunum. Samanburðarhæfar tölur sýna að gjöld fyrir einskonar meðalfjölskyldu vegna frístundaheimila, leikskóla, sundferða, tónlistarskóla og fasteignagjalda eru að meðaltali 670 þúsund krónur á ári á höfuðborgarsvæðinu. Þessi gjöld eru lægst í Reykjavík eða 535 þúsund krónur. Þetta er aðeins fátt eitt af því sem sýnir að það er gott að búa í Reykjavík. Við í Samfylkingunni stefnum að því að gera enn betur.

9.11.2005: Prófkjörsmálin
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er afstaðið. Það má svo sem ýmislegt um það segja. Röð efstu manna kom ekki á óvart. Þarna er margt ágætisfólk sem við þekkjum. Við þekkjum líka þá stefnu sem þetta fólk hefur fylgt og við þekkjum þær breytingar sem stefnan hefur tekið, t.d. í skipulagsmálum. Við þekkjum hvernig stefna flokksins er einn daginn að draga úr útgjöldum til félagsmála, en annan daginn að auka þau, einn daginn að auðvelda fyrirtækjum að menga umhverfið og annan daginn að draga úr mengun. Við þekkjum hvernig þessi flokkur vill beita sköttum og fjármálum fyrir tiltekinn hóp á kostnað annars og úthluta gæðum á lágu verði til þeirra sem eiga meira fyrir. Samkvæmt því sem fram hefur komið í fjölmiðlum kostaði prófkjörið um tug milljóna króna hjá þeim sem mest eyddu í baráttuna. Ýmis fyrirtæki lögðu talsvert fram, en athyglisvert er að einn frambjóðandinn treysti sér ekki til að taka við framlögum frá byggingaverktökum. Hvers vegna ekki? Telur hann að því myndi fylgja einhver sérstakur vandi? Hvað þá ef byggingaverktakar hafa styrkt aðra frambjóðendur? Og er það eitthvað minni vandi sem gæti fylgt styrkjum frá byggingaverktökum en öðrum fyrirtækjum? Þetta er umhugsunarefni. Víst er að sumir framhaldsskólanemar mættu saddir heim til sín eitt síðdegið eftir pítsuát og gosdrykkjaþamb að loknu rútubílarallíi um borgina á kjörstað. En það er kannski huggun fyrir einhverja að það virðast ekki hafa verið byggingaverktakar sem borguðu pítsurnar og gosið!

5.11.2005: Borgarmál Samfylkingar
Nýlega var haldin borgarmálaráðstefna Samfylkingarinnar. Þar var kynnt starf í þremur hópum sem starfað hafa undanfarnar vikur. Í einum hópi voru mennta- og menningarmál til umfjöllunar, í öðrum voru það velferðar- og jafnréttismál og í þeim þriðja voru það skipulags-, umhverfis- og lýðræðismál sem rædd voru. Ráðstefnan tókst vel og var með henni lagður góður grunnur að málefnavinnu Samfylkingarinnar fyrri komandi kosningar. Sjá umfjöllun um borgarmálaráðstefnu Samfylkingarinnar á vef SFFR.

1.11.2005
Í dag var fundur í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar var fyrsta málið á dagskrá tillaga er varðaði starfsemi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu í gömlu Heilsuverndarstöðinni við Barónstíg. Málið snýst um það að borg og ríki eiga húsið saman, en starfsemin í húsinu er á vegum ríkisins. Ósætti hefur verið um viðhald og viðgerðir og húsið hefur legið undir skemmdum. Því hefur sú hugmynd komið upp að húsið verði selt, eða að borgin losi sig að minnsta kosti við sinn eignarhlut. Ábyrgðin á þessari starfsemi er öll á hendi ríkisins, sem þó hefur ekki sýnt mikinn vilja til að halda húsnæðinu almennilega við. Það er vitaskuld hagur og vilji allra borgarbúa, og þar með borgarstjórnar að heilsugæslan verði sem best, en mikilvægur hluti heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu fer fram í þessu húsnæði, s.s. barnaeftirlit og mæðravernd. Heilsugæslan rekur um 10 stofur á höfuðborgarsvæðinu; í Reykjavík, Mosfellsbæ, Kópavogi og Seltjarnarnesi, og svo bætast Hafnarfjörður og Garðabær við um áramótin. Samtals vinna þarna um 500 manns, þar af um 70 við Barónstíg. Borgarstjórn skoraði í dag á heilbrigðisráðherra að hlutast til um að þessi þjónustustarfsemi í þágu höfuðborgarbúa verði tryggð á sem bestan hátt. Mig minnir reyndar að fulltrúi frjálslyndra hafi einn verið á móti tillögu þess efnis, en hann sættir sig ekki við neitt annað en að borgin geri allt sem í hennar valdi stendur til þess að tryggja starfsemi heilsugæslunnar nákvæmlega í þessu húsnæði. Það er virðingarvert sjónarmið út af fyrir sig, sérstaklega í ljósi þess að hér er um sögulegt hús að ræða. En það er vafasamt að það sé mikil skynsemi í því fyrir borgina að taka svo einstrengingslega afstöðu í máli sem ríkið á að sjá um. Ég efa það. Heilbrigðisráðuneytið og fjármálaráðuneytið verða að tryggja sómasamlega þjónustu í þessum efnum - og við verðum að knýja á um að svo verði. Það er svo annað mál að það getur ekki hvaða starfsemi sem er farið fram því menningarsögulega húsi sem Heilsuverndarstöðin er. Víggirt sendiráð eiga þangað ekkert erindi.

24.október 2005:
Í dag upplifði ég sögulega stund. Ég varð vitni að stærsta baráttufundi í sögu Íslands, þegar tugþúsundir kvenna lögðu niður vinnu til þess að mótmæla ójöfnuði og órétti sem þær eru beittar. Um fimmtíu þúsund konur og einhver hundruð eða fáein þúsund karla fylktu liði niður Skólavörðustíg, Laugaveg, Bankastræti og Austurstræti að Ingólfstorgi. Þótt ýmislegt hafi áunnist frá baráttufundinum á degi Sameinuðu þjóðanna fyrir 30 árum, er enn langt í land með að launajafnrétti hafi náðst, auk þess sem konur mega þola margt órétti, kynferðis síns vegna. Fyrir 25 árum þegar ég var í stúdentapólitíkinni héldum við, eða vonuðum, að okkar kynslóð myndi ná fullkomnu jafnrétti. Sams konar væntingar gerir ungt fólk í dag. En það er aðeins með því að fylgja vonum okkar eftir með baráttu sem árangur næst. Það hefur gerst smám saman, í nokkrum litlum skrefum, og e.t.v. fáeinum stórum. En því miður hefur jafnréttið verið knúið til að hopa á fáeinum sviðum, s.s. með þeirri klámvæðingu sem riðið hefur húsum víða. Á því verður að taka. Eins ber að varast allar tillögur vel meinandi pólitíkusa um að borga foreldrum eða ættingjum þeirra fyrir að vera heima með börnin. Íhaldsmenn hafa lagt þetta til við og við á Norðurlöndum og einnig hafa þessar hugmyndir ratað á tillöguborð miðíhaldsmanna hér á landi. Ég hélt að það væri fyrir löngu búið að afgreiða þessar hugmyndir út af borðinu sem kvennagildru (kvinnofälla er orðið sem Svíar nota yfir þetta).  Því á meðan konur bera ekki nema hluta þess úr býtum fyrir launavinnuna sem karlar fá, er fásinna að ætla annað en að framkvæmd tillagna af þessum toga myndir þrýsta þeim tekjuminni til að sinna börnum og búi í meira mæli. (Sjá mynd frá göngunni í dag)

22.október 2005:
Það er fróðlegt að fylgjast með prófkjörsbaráttu sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Frambjóðendur kynna verðleika sína, störf og hæfileika og sýna mátt sinn og megin. Það er allt gott og blessað. Hins vegar hlýtur það að vekja upp ýmsar spurningar hjá fólki í jafnaðarflokki hve miklum fjármunum er eytt í prófkjör af þessu tagi og hvaðan þeir fjármunir koma. Talsverðu er varið í kosningaskrifstofur, veislur, heilsíðuauglýsingar og flettiskilti. Ég veit til þess að jafnvel ýmsum sjálfstæðismönnum blöskrar fjárausturinn. Kostnaður þeirra sem hafa mest umleikis nálgast líklega tug milljónar króna. Hver hefur efni á slíku?Auðvitað er hægt að safna fé meðal stuðningsmanna og þiggja vinnuframlag. En það læðist þó að manni sá grunur að fjársterkir aðilar standi á bak við að talsverðan hluta af þessu. Og skyldu slíkir fjármunir ekki geta haft áhrif?
 

                                      Stefán Jóhann Stefánsson,  netfang: stefan.johann@islandia.is, sími 895-0532